Stefanía Nindel er nýkjörinn formaður FKA á Vesturlandi sem er undirdeild FKA á Íslandi, en FKA stendur fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu. Deildin var stofnuð árið 2018 en tæplega 40 konur í FKA eru búsettar á Vesturlandi. Félagið er opið öllum konum sem eru í eigin atvinnurekstri og konum sem gegna stjórnendastörfum í atvinnulífinu. „Það er oft misskilningur að félagið sé einungis fyrir konur sem reka sitt eigið fyrirtæki og ég hélt það um tíma sjálf,“ segir Stefanía.
Tilgangur FKA er þrennskonar: Tengslamyndun, að konur kynnist öðrum konum í svipuðum störfum. Sýnileiki, að auka sýnileika kvenna, en FKA stendur til dæmis fyrir sýnileikadegi á hverju ári. Jafnréttisbarátta, en ýmis verkefni eru í gangi innan FKA því tengd, m.a. hreyfiaflsverkefnið Jafnvægisvogin. Eitt af markmiðum þess verkefnis er að auka jafnrétti kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi. Fyrirtæki geta sjálf skráð sig til leiks og viðurkenningar eru veittar þeim fyrirtækjum sem hafa á framúrskarandi hátt unnið að því og öðrum markmiðum Jafnvægisvogarinnar.
Stefanía Nindel er fædd og uppalin í Þýskalandi. Hún kom fyrst til Íslands sumarið þegar hún var sautján ára, og aftur þegar hún var átján ára. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi í Þýskalandi árið 1995 kom hún til Íslands til að dvelja aftur yfir sumartímann. Hér hefur hún hins vegar verið síðan. „Ég horfði á Nonna og Manna þegar ég var 12 ára, þar heyrði ég í fyrsta sinn af Íslandi og langaði að heimsækja landið. Eftir fyrstu heimsókn mína var ekki aftur snúið, ég var heilluð af landi og þjóð,“ segir Stefanía en hún hefur verið á Vesturlandi meira og minna síðan hún kom til Íslands. Fyrstu tvö sumrin var hún í Reykjavík en 19 ára fór hún í sveit á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði. Þá um haustið ákvað hún að fara í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þaðan sem hún útskrifaðist svo fyrst úr bændadeild og síðar með BSc í Búvísindum.
Í skólanum kynntist hún eiginmanni sínum og byggðu þau sér hús á Hvanneyri árið 2003 þar sem þau búa enn. „Við ákváðum að við vildum ala börnin okkar upp í því umhverfi sem er á Hvanneyri. Þar eru frábærir skólar, leikskóli og grunnskóli, mikil nálægð við náttúruna og stutt í að sækja þjónustu annað ef þess þarf,“ segir Stefanía.
Stefanía segist alltaf hafa haft áhuga á rekstrarhlið landbúnaðar og sneri lokaritgerð hennar í BSc náminu að því. Hún tók svo að sér kennslu í LbhÍ eftir útskrift þar sem hún kenndi m.a. bókhald og rekstrarfræði. Hún ákvað svo að söðla um og fara alfarið yfir í fjármál. Þá réði hún sig í vinnu við Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem hún var fjármálastjóri í fimm ár en samhliða lagði hún stund á meistaranám í fjármálum við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hún árið 2015 og hefur síðan verið fjármálastjóri hjá Borgarverki. En í hverju felst það starf? „Ég sé um öll uppgjör, svo sem mánaðar- og ársuppgjör, sem og verkuppgjör. Síðan eru það fjárfestingar og fjármögnun, greiðsluflæði og samskipti við lánastofnanir. Og núna er ég í áætlanagerð fyrir næsta ár,“ segir Stefanía en Borgarverk er verktakafyrirtæki með starfsstöðvar í Borgarnesi, Mosfellsbæ og á Selfossi.
„Borgarverk er aðallega í vegagerð og viðhaldi á vegum úti á landi en svo erum við líka mikið í gatnagerð í þéttbýli. Í nokkrum hverfum á Selfossi höfum við til að mynda tekið að okkur alla lagnavinnu, gatnagerð, malbikun og gerð göngustíga. Nýlega erum við líka farin að vera meira í hafnargerð, við erum með tæki til að reka niður stálþil, þannig það hefur aðeins bæst við verkefni í því,“ segir Stefanía en frá því hún hóf þar störf hefur fyrirtækið þrefaldast að stærð. Nú eru til að mynda þrír starfsmenn á fjármálasviði auk þess sem nýlega var ráðinn inn mannauðsstjóri en Stefanía sá ein um öll fjármál fyrirtækisins, þ.m.t. launaútreikninga og bókhald þegar hún hóf þar störf árið 2015. „Mér hefur fundist ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Það gerir það líka að verkum að starfið mitt er mjög fjölbreytt og ég hef verið að leita mér nýrrar þekkingar til þess að vera sem best starfi mínu vaxin,“ segir Stefanía en hún hefur undanfarið setið ýmis námskeið sem nýtast henni í starfi fjármálastjóra.
Nú í nóvember útskrifaðist Stefanía sem viðurkenndur stjórnarmaður frá Akademias og segir hún það nám vera mjög gagnlegt fyrir alla sem sitja í stjórnum fyrirtækja eða vinna náið með stjórnum. Í vor sat hún námskeið í Fjármálum og fjártækni og hefur einnig nýlega lokið námskeiði í Power BI. „Það er að verða svo mikil stafræn umbylting í vinnuumhverfi almennt og hér í Borgarverki er það engin undantekning. Allt bókhaldið er til dæmis meira og minna orðið rafrænt. Stór partur af mínu starfi hefur verið að þróa aðferð til þess að gera upp verk og svo núna að færa það yfir í sjálfvirkt uppgjör. Sú vinna kláraðist fyrir um ári síðan þannig að núna erum við komin með sjálfvirkt mælaborð og ég hef síðustu 18 mánuði verið að læra á Power BI sem er forrit svipað og excel, nema mun öflugra. Núna er ég að færa alla vinnuna mína inn í það umhverfi, það breytir mikið vinnulaginu og gerir það að verkum að maður þarf ekki lengur að útbúa handvirkt hvert einasta uppgjör,“ segir Stefanía og bætir við að hún hlakki til að mæta í vinnuna á hverjum degi enda brenni hún fyrir sínu starfi. „Ég vinn með hópi af góðu fólki sem er hvert og eitt mjög hæft á sínu sviði.
Frá árinu 2016 hefur Borgarverk ratað árlega inn á lista Credit info yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi og er því um að ræða eitt af öflugustu fyrirtækjum Vesturlands. Hvað telur Stefanía að geti útskýrt þá velgengni? „Það er ótrúlega gott fólk að vinna í þessu fyrirtæki. Öflugt fólk og hörkuduglegt sem hefur áhuga á að vinna vel. Það er mikilvægt að það sé gott teymi í því að láta hlutina ganga upp. Svo hefur verið uppgangur síðustu ár því að eftir hrunið var mikið skorið niður og við erum aðallega að vinna fyrir ríkið og sveitarfélög. Þannig það hafa bæst við mörg verkefni þar síðustu ár. Menn hafa einnig verið útsjónarsamir að hitta á rétt verð þegar boðið er í verk og það er mikilvægt upp á að það sé þá ágætis afkoma,“ segir Stefanía. Hún sjálf kemur ekki að tilboðsgerð en hún sér um verkuppgjör og það nýtist til þess að sjá hvernig verk hafa komið út, þegar framkvæmdastjóri ákveður tilboð í sams konar verkefni seinna.
Stefanía var um tíma héraðsráðunautur í Austur-Skaftafellssýslu og seinna rekstrarstjóri hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Henni finnst gaman að læra nýja hluti og tileinka sér nýja þekkingu og lifir eftir mottóinu: Svo lengi lærir sem lifir. En hvað finnst henni gaman að gera utan vinnu? „Mér finnst mjög gaman að fara í göngutúra í okkar fallegu náttúru á Íslandi. Síðan hef ég brennandi áhuga á jóga sem ég iðka reglulega og það hjálpar mér að halda jafnvægi í daglegu lífi. Svo er auðvitað mjög gaman að verja tíma með fjölskyldunni og góðum vinum, borða góðan mat og minna sig á að njóta lífsins.“
Stefanía skráði sig í FKA fyrr á þessu ári og segir að það sem hafi drifið hana í þann félagsskap var aðallega vöntunin á því að tala við fólk sem fæst við sömu eða svipaða vinnu. „Sem fjármálastjóri getur maður pínu einangrast þar sem það er yfirleitt aðeins einn slíkur í hverju fyrirtæki. Ég fann að mig vantaði betra samtal við aðra stjórnendur til þess að heyra hvað þeir eru að gera á sínum vinnustað. Vinnuumhverfið er að taka miklum breytingum um þessar mundir og það er eins gott að fylgjast vel með ef maður vill taka þátt í þeirri þróun. Síðan hef ég mikinn áhuga á jafnrétti og vil leggja mitt fram í þeirri baráttu, við eigum enn svolítið langt í land með það hér á Íslandi og við skuldum konum komandi kynslóða að halda áfram,“ segir Stefanía. En hvaða heilræði hefur hún til kvenna á Vesturlandi?
„Skráið ykkur. Ég vil hvetja sem flestar konur sem eiga og reka fyrirtæki eða gegna stjórnendastarfi í fyrirtæki til að skrá sig í FKA ef þær hafa áhuga á að auka tengslanetið og verða sýnilegri eða hafa áhuga á jafnrétti. Það er mikilvægt að konur í atvinnulífinu séu teknar alvarlega og að þær fái tækifæri til að spreyta sig. Í FKA er hægt að bjóða fram krafta sína í nefndar- eða stjórnarstörf og með því getur maður öðlast svo dýrmæta reynslu. Mín upplifun af því að vera í FKA hingað til er að það er tekið ótrúlega vel á móti nýjum konum. Það þarf ekki að þekkja neinn til þess að mæta á viðburði því félagskonur taka nýjum meðlimum opnum örmum. Það er auðvelt að ná tengslum við aðrar konur sem eru að fást við sömu eða svipaða hluti og maður sjálfur,“ segir Stefanía að lokum.