Það hefur fjölgað hratt í hópi þeirra þjónustustöðva Olís sem bjóða upp á Lemon sem hluta af sínu vöruvali en Lemon rekur nú þegar hefðbundna staði í Norðlingaholti og í Gullinbrú í Reykjavík.
Á undanförnum vikum hafa þjónustustöðvar Olís í Borgarnesi, á Akranesi og nú síðast á Selfossi bæst í hópinn. Þar er boðið upp á Lemon míní þar sem fjórar vinsælustu tegundirnar af djúsum og samlokum Lemon eru á boðstólnum. „Lemon míní er skemmtileg viðbót við Grill 66 matseðilinn og fjölgar þeim hollu valkostum sem í boði eru. Það má því segja að allir geta fengið eitthvað við sitt hæfi með viðkomu á Olís,“ segir í fréttatilkynningu.
,,Við hjá Olís kappkostum að bjóða viðskiptavinum okkar upp á fjölbreytta þjónustu og veitingar á þjónustustöðvum okkar. Samhliða því að endurnýja allar þjónustustöðvar okkar erum við að opna Lemon míní veitingastaði á völdum stöðvum um land allt. Þannig geta viðskiptavinir valið um ferska safa og samlokur frá Lemon míní eða gómsæta hamborgara frá Grill 66. Við höfum fengið feikilega góðar viðtökur á nýju Lemon stöðvunum og bjóðum alla velkomna í heimsókn til okkar," segir Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri smásölusviðs Olís, í fréttatilkynningu.