Þessa dagana er mikið um að vera hjá öllum björgunarsveitum landsins í ýmsum verkefnum í aðdraganda hátíðanna en þessi tími ársins er jafnan álagstími hjá félögum í fjáröflunum. Blaðamaður heyrði hljóðið í Elínu Matthildi Kristinsdóttur, formanni björgunarsveitarinnar Brákar í Borgarnesi. Sveit hennar hefur sannarlega staðið í stórræðum undanfarin ár, flutti í vor inn í nýtt og glæsilegt björgunarsveitarhús á Fitjum II, ofan við byggðina í Borgarnesi.
„Við erum nýbúin að vera í neyðarkallasölunni og erum löngu farin að undirbúa flugeldasöluna, sem er stærsta fjáröflunarleið flestra sveita,“ segir Elín. „Aðal verkefnið að undanförnu, og langstærsta verkefnið okkar í Brák, er bygging hússins okkar. Það er verulega umfangsmikið verkefni sem er nú langt komið, þótt mikið sé eftir enn. Báta- og bílasalirnir eru svo til klárir og félagsaðstaðan er langt komin. Við erum nýlega búin að setja upp skápa í búningsaðstöðunni okkar og náðum þeim áfanga í vikunni að vera með tengt vatnssalerni og finnst okkur það mikill lúxus. Fundarsalurinn okkar mun einnig nýtast sem glæsilegur útleigusalur og eldhúsið verður fínasta veislueldhús. Við erum mjög spennt fyrir því að sýna húsið þegar það verður tilbúið og vonumst til að geta verið með opið hús í lok mars.“
En Elín segir að vegna anna við húsið verði sumt að láta eftir. „Við erum vön að vera með jólatrjáasölu í desember en vegna þessara anna við húsið og að gera það klárt fyrir flugeldasöluna og því þarf jólatrjáasalan því miður undan að láta í ár. Við gerum ráð fyrir að koma sterk inn að ári en bendum okkar dyggu viðskiptavinum á jólatrjáasölu félaga okkar í björgunarsveitinni Heiðari en þeir verða með sölu í Grafarkotsskógi 11., 17. og 18. desember. Við hlökkum aftur á móti mikið til að vera með flugeldasöluna í nýja húsinu okkar þar sem aðstæður verða svo miklu betri og aðgengi sérstaklega gott.“
Elín segir að mikill hugur sé í hópnum, góð stemning og samstarf sveitanna á svæðinu er alltaf að verða meira í formi sameiginlegra æfinga og verkefna. „Það skiptir svo miklu máli þegar við förum í útköllin, sem oftar en ekki eru sameiginleg, því þá störfum við saman sem einn hópur og þá er svo gott að þekkja vel hvert annað. Sérstaklega í meira krefjandi verkefnum þar sem reynir á andlegu hliðina ekki síður en þá líkamlegu.