Samkvæmt þeim lögum sem taka gildi um áramót er varða flokkun sorps við heimili á Íslandi þarf að flokka sorp í fjóra flokka og skulu ílát vera fyrir hvern flokk við hvert heimili.
Bæjarstjórn Akraness hefur sent frá sér tilkynningu um ákvörðun sína í þeim efnum. Þar segir að það fyrirkomulag sem hafi fengið mestan meðbyr samanstandi af fjórum tunnum, þ.e. einni tunnu fyrir hvern flokk. Í dag eru við hvert heimili á Akranesi tvær 240L tunnur og segir í tilkynningunni að þær verði áfram, og skuli flokka í þær annars vegar plast og hins vegar pappa/pappír. Við flóruna munu svo bætast tvær 140L tunnur, önnur fyrir lífrænan úrgang og hin fyrir almennt heimilissorp. Þá segir að stefnt sé að því að tæma 140L tunnurnar á tveggja vikna fresti en hinar stærri verði tæmdar á fjögurra eða sex vikna fresti.
Við fjölbýlishús verður notast við 240L tunnur fyrir lífrænan úrgang og sitthvert 660L karið undir hina flokkana þrjá.
Þessar breytingar taka að öllum líkindum gildi í ágúst 2023, segir jafnframt í tilkynningu.
Þá er stefnt að því að koma upp a.m.k. þremur grenndarstöðvum í bænum sem verða opnar almenningi og taka á móti pappa/pappír, plasti, málmum, gleri og textíl.