
Skinkuhorn – Ida María Brynjarsdóttir
Nýjasti viðmælandi Skinkuhorns er Ida María Brynjarsdóttir en hún er hannyrðakona úr Borgarfirðinum sem hefur vakið eftirtekt á samfélagsmiðlum. Á næstu vikum mun hún halda námskeið í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík þar sem hún mun kenna og sýna nemendum sína eigin hönnun. ,,Ég prjóna rosalega mikið og finnst svo gaman að sýna frá því en ég prjóna mest á stelpurnar mínar. Ég hef prjónað síðan ég man eftir mér en ég prjónaði mikið þegar ég var yngri, svo kom smá lægð í þetta hjá mér en þegar ég varð ólétt af eldri stelpunni minni hrökk ég aftur í gang í prjónaskapnum. Ég hef alltaf þurft að vera að gera eitthvað, ég hef aldrei komist upp á lagið með t.d. að horfa á sjónvarp, ég þarf alltaf að vera að búa til eitthvað í höndunum,“ segir Ida María.
Byrjaði ung að sauma
Ida María hefur alltaf haft áhuga á hönnun og byrjaði að sauma sín eigin föt á grunnskólaaldri. ,,Amma saumaði ótrúlega mikið. Heima hjá henni var saumaherbergi með allar græjur. Hún var með allskonar saumavélar, sníðaborð og hillur fullar af efnum. Hún leyfði mér alltaf að leika mér. Hún saumaði dúkkuföt en svo vildi ég sauma mér kjóla svo ég saumaði mér t.d. kjól fyrir ball í skólanum. Sumt af þessu hef ég geymt og á ennþá til, þetta er jafnvel komið aftur í tísku í dag.“
Lærði í Skals í Danmörku
Hún flutti til Danmerkur árið 2017 til að læra hannyrðir við handavinnuskólann Design og håndarbejdsskolen í Skals. ,,Flestir taka bara hálft ár í þessum skóla. Þarna er kenndur vefnaður, fatasaumur, prjón og útsaumur sem eru svona fastir áfangar sem allir læra. Svo koma svona minni námskeið yfir önnina. Ég lærði t.d. leðursaum, keramik, vélprjón og ýmislegt fleira sem er svolítið öðruvísi. Sömu áfangarnir eru kenndir allar annirnar og þess vegna flestir sem taka bara hálft ár. Ég ákvað að taka heilt ár af því maður getur ákveðið svolítið sjálfur hvað maður gerir og mig langaði að læra sem mest. Kennarinn er bara þarna til að hjálpa þér með það sem þú vilt gera. Þú þarft ekki að fylgja einhverjum ákveðnum verkefnum. Ég vildi taka heilt ár til að læra sem mest. Skólinn er til helminga danir og svo fólk frá öllum löndum. Það voru það margir útlendingar að margt var kennt á ensku en ég hefði verið til í að læra meiri dönsku. En umhverfið er ótrúlega fallegt, þetta er sjarmerandi gamalt hús í fallegu umhverfi. Skals er lítill bær og þegar ég var þarna bjuggu svipað margir í Skals og í Borgarnesi,“ segir Ida María.
Heldur námskeið í Hússtjórnarskólanum
Í þessari viku hefst námskeið sem Ida María er að fara að kenna í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík. ,,Ég er að fara að vera með námskeið í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík. Ég hef ekki verið að kenna áður en ég er mjög spennt og þetta verður örugglega mjög gaman. Námskeiðið er opið öllum og þetta á að henta fólki á öllum stigum, byrjendum og lengra komnum,“ segir Ida María. ,,Þetta kom til þannig að Marta sem er skólastjóri í Hússtjórnarskólanum heyrði bara í mér og spurði hvort ég væri til í að koma og vera með námskeið. Mér fannst það bara frábær hugmynd en mig hefur alltaf langað til að gera eitthvað svona. Þetta hefur blundað í mér í einhvern eftir að ég kom heim frá Danmörku. Það hefur ekkert orðið úr því hingað til svo mér fannst þetta bara tilvalið.“
Langar að gefa út eigin uppskriftir
Ida María segir að hún eigi eftir að læra margt en í framtíðinni langar hana að geta gefið út sínar eigin uppskriftir. ,,Þegar ég fitja upp er ég aldrei búin að ákveða hver niðurstaðan á að verða, hún kemur bara þegar ég felli af en ég breyti oft um skoðun í miðju verkefninu. Svo skrifa ég alltof sjaldan niður það sem ég gerði en mig langar t.d. að geta búið til og skrifað niður uppskriftirnar mínar. Ég mikla það svo mikið fyrir mér að skrifa niður uppskriftir og gefa þær út en ég fæ oft spurningar á Instagram hvaða uppskriftir ég er að nota og það er svo leiðinlegt að geta ekki rétt eitthvað fram. Mig langar kannski einn daginn að gera bók eða vefsíðu með mínum uppskriftum þannig að það er kannski svona framtíðarmarkmið,“ segir Ida María í Skinkuhorni vikunnar. Þátturinn er aðgengilegur á Spotify og Soundcloud.com/skessuhorn
{ "name": "core/freeform", "attributes": [], "saveContent": "\n<p>https://soundcloud.com/skessuhorn/7-skinkuhorn-ida-maria?si=3b2acaa0e28a440b8b4f9f42dac9c51c&utm_source=clipboard&utm_medium=text&utm_campaign=social_sharing</p>\n<p></p>", "innerBlocks": [] }