
Skinkuhorn – Ida María Brynjarsdóttir
Nýjasti viðmælandi Skinkuhorns er Ida María Brynjarsdóttir en hún er hannyrðakona úr Borgarfirðinum sem hefur vakið eftirtekt á samfélagsmiðlum. Á næstu vikum mun hún halda námskeið í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík þar sem hún mun kenna og sýna nemendum sína eigin hönnun. ,,Ég prjóna rosalega mikið og finnst svo gaman að sýna frá því en ég prjóna mest á stelpurnar mínar. Ég hef prjónað síðan ég man eftir mér en ég prjónaði mikið þegar ég var yngri, svo kom smá lægð í þetta hjá mér en þegar ég varð ólétt af eldri stelpunni minni hrökk ég aftur í gang í prjónaskapnum. Ég hef alltaf þurft að vera að gera eitthvað, ég hef aldrei komist upp á lagið með t.d. að horfa á sjónvarp, ég þarf alltaf að vera að búa til eitthvað í höndunum,“ segir Ida María.