Bæjarráð Akraneskaupstaðar fékk gesti á fund sinn í gær, þau Aðalsteinn Gunnar Jóhannsson frá Ísold fasteignum en frá Íþróttabandalagi Akraness þau Hrönn Ríkharðsdóttir formann stjórnar ÍA og Eggert Herbertsson formann stjórnar KFÍA. Kynntu þau fyrir bæjarráði hugmyndir um uppbyggingu 80 herbergja hótels og heilsulindar á Jaðarsbökkum. Ef til hönnunar svæðisins kæmi, út frá þessum hugmyndum, þarf að nýta hluta knattpyrnuvallar ÍA og snúa vellinum um 90 gráður. Hótel og heilsulind myndu þannig tengjast Guðlaugu og svæðinu þar í kring, að sjónum og þyrlupallinum.
Í erindi því sem formenn ÍA og KFÍA skrifa og lögðu fram segir m.a. „ÍA, KFÍA og Akraneskaupstaður hafa átt undanfarna mánuði samtal við Aðalstein Gunnar Jóhannsson hjá Ísold fasteignir sem hefur áhuga á uppbyggingu á vestasta hluta svæðisins. Um er að ræða hugmynd um byggingu hótelaðstöðu sem tengist Langasandi og Guðlaugu, m.a. með aukinni baðaðstöðu. Til þess að þær hugmyndir geti orðið að veruleika þarf að hliðra aðalvellinum til og liggur fyrir gróft mat á því hvort mögulegt sé að snúa leikvellinum um 90 gráður og skapa þannig aukið rými vestan vallarins. Samkvæmt mælingum Mannvits virðist þetta framkvæmanlegt og mögulegt að skipuleggja um 12.000 fm. svæði sem gæti uppfyllt kröfur um löglega stærð leikvallar með öryggissvæðum og nýrri aðstöðu fyrir áhorfendur, félagsaðstöðu og önnur rými annað hvort vestan- eða austanvert við völlinn. Vestan vallarins má áætla að rými til uppbyggingar og umhverfisbóta sé um 1,5 ha. Mögulegt er að fleiri útfærslur geti orðið til í hönnunarferli.“
Þá segir í erindi bréfritara að ljóst sé að ekki verður hægt að spila knattspyrnu á aðalvellinum meðan á þessum framkvæmdum stæði. Því væri nauðsynlegt að gera bráðabirgða keppnisvöll austan við Akraneshöllina, en sá völlur gæti nýst áfram sem æfinga- og keppnisvöllur. Loks fóru bréfritarar fram á leyfi Akraneskaupstaðar til að eiga viðræður við nefndan aðila, Ísold, með það að markmiði að leggja fyrir bæjarstjórn tillögu að skipulagi og drög að samkomulagi um hvernig koma megi því skipulagi til framkvæmda.
Tekið fagnandi
Í bókun bæjarráðs segir: „Bæjarráð fagnar langþráðum áhuga á uppbyggingu hótels á Akranesi og heilsutengdri ferðaþjónustu sem gefur margvísleg tækifæri til frekari uppbyggingar íþróttamannvirkja á Akranesi. Bæjarráð tekur jákvætt í erindið sem fer nú til frekari stjórnsýslulegrar meðferðar í viðeigandi fagráðum Akraneskaupstaðar.“
Viljum sækja fram
„Það er spennandi tækifæri fyrir okkur á Akranesi að öflugt fasteignafélag hafi vilja til uppbyggingar hótels og baðlóns á Akranesi og vilji sækja á tækifæri í heilsutengdri ferðaþjónustu. Það skiptir miklu máli að stjórnir Íþróttabandalags Akraness og Knattspyrnufélags ÍA séu spennt fyrir tækifærunum sem þessu tengjast og sjá möguleika í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Guðlaug við bláfánaströndina Langasand, er búin að sanna að sóknartækifæri eru til staðar á Akranesi í ferðaþjónustu. Ánægjulegt hefur verið að finna í samtölum að ríkur vilji er til að tryggja aðgengi íbúa Akraness og gesta að strandstígnum og hinni einstöku náttúrufegurð sem er á svæðinu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri af þessu tilefni.