Hópur fólks og þar á meðal Svæðisgarðurinn Snæfellsness hefur hrundið af stað áhugaverðu verkefni sem nefnist Hróshringur Snæfellsness. Verkefnið er framhald af öðru verkefni hjá svæðisgarðinum sem nefnist Góðar fréttir. Verkefnið er ekki flókið og kostar lítið, en því er ætlað að bera hlýja strauma þvert á sveitarfélagamörk. Íbúar hrósa þannig íbúum í nágrannasveitarfélagi sínu fyrir það sem vel er gert. Hrósin munu birtast á íbúasíðum á Facebook og þá er hvatt til að fólk haldi áfram að setja inn hrós. Nú hrósa íbúar Snæfellsbæjar íbúum Eyja- og Miklaholtshrepps, þeir íbúum Stykkishólms, Hólmarar hrósa Grundirðingum sem aftur hrósa íbúum í Snæfellsbæ.
Eyja- og Miklaholtshreppur hrósar sundlaug í Stykkishólmi, Stykkishólmur hrósar Grundarfirði fyrir skíðasvæðið, Grundarfjörður hrósar Snæfellsbæ fyrir listalífið (áherslu á menningu á listir) og Snæfellsbær hrósar Eyja- og Miklaholtshreppi fyrir framsýni við Gestastofu Snæfellsbæjar. Þá skal tekið fram að allir mega hrósa, þvert á sveitarfélagamörk og í gildi er; gott hrós er gulli betra!
Neðan við hvert hrós nú stendur: „Hrós er stundum kallað vítamín sálarinnar, ekki að ástæðulausu. Hrós skiptir máli, það eflir sjálfstraustið, hvetur okkur til dáða og gefur orku og ánægju. Það er í raun fátt sem gleður meira. Hrós skiptir líka máli fyrir frammistöðu á vellíðan á vinnustöðum og ýtir undir jákvæð samskipti.
Oft hrósum við náunganum í hljóði eða óbeint við aðra. Okkur langar að hrós berist á réttan stað og hvetjum íbúa til að láta í sér heyra. Hrósa náunganum, nágrannanum eða hverjum þeim sem þura þykir - þvert á sveitarfélagamörk. Lifi hrósið!“