Aðalfundur hestamannafélagsins Borgfirðings fór fram sl. þriðjudag en þar var íþróttamaður félagsins þetta árið verðlaunaður ásamt því að veittar voru heiðursfélagaviðurkenningar. Þau Marteinn Valdimarsson, Halldór Sigurðsson, Guðrún Fjeldsted og Kristján Gíslason hlutu heiðursfélaganafnbót þetta árið og voru sérstaklega heiðruð með viðurkenningu og gjöf.
Kristín Eir Hauksdóttir Holaker er íþróttamaður Borgfirðings 2022 en hún átti sterkt keppnisár og þar ber hæst sigur hennar í barnaflokki á landsmóti nú í sumar, einnig fékk hún fékk einkunnina 9,35 í gæðingakeppni Borgfirðings. Þá varð hún samanlagður Íslandsmeistari barna, tvöfaldur sigurvegari í fimi, o.fl. Kristín hlaut titilinn nú annað árið í röð. Í öðru sæti var Guðmar Þór Pétursson og Þorgeir Ólafsson hafnaði í þriðja sæti.