Fimmtudaginn 24. nóvember síðastliðinn var góðgerðardagur í Grundaskóla á Akranesi til styrktar hjálparstarfi í Malaví. Undanfarnar vikur höfðu nemendur og starfsfólk skólans undirbúið markaðinn en þar var til sölu fjölbreyttur varningur. Fullt var út úr dyrum þennan dag og hægt var að kaupa handverk úr leir og textíl, skreyttar krukkur, kökudeig, kókóskúlur, bækur og margt fleira.
Fram kemur á heimasíðu Grundaskóla að alls hafi safnast ellefu hundruð og sextíu þúsund krónur á Malaví markaðnum. Umræddir fjármunir hafa nú þegar verið færðir inn á hjálparreikning Rauða kross Íslands sem mun tryggja að peningarnir nýtist sem best fyrir þá sem minnst mega sín.
„Frábær dagur og niðurstaða í alla staði og stórt hrós á skólasamfélag Grundaskóla. Takk enn og aftur fyrir stuðninginn og þátttökuna á góðgerðardeginum okkar,“ segir í fréttinni á grundaskoli.is.