Landsnet hefur boðað ótilgreindan stóran hóp landeigenda í Borgarfirði á upplýsingafund mánudaginn 5. desember næstkomandi kl. 20 á Hótel Hamri í Borgarnesi. Boðað fundarefni er staða undirbúnings fyrir lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1, en ráðgert er að hún verði 90 km loftlína milli Klafastaða í Hvalfirði og að Hrútatungu fyrir botni Hrútafjarðar. Lagnaleiðin er því að hluta yfir eignarlönd og bújarðir í Hvalfjarðarsveit og Borgarfirði og loks um afréttinn á Holtavörðuheiði. Landsnet er framkvæmdaraðili við verkið, eigandi og rekstraraðili fyrirhugaðrar háspennulínu og metur samkvæmt lögum umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Fyrirtækið hefur falið Verkís hf. að hafa umsjón með umhverfismatinu. Það eru hinsvegar ávallt sveitarfélög sem hafa hið raunverulega skipulagsvald og ber að taka alla vinkla inn í ákvörðun áður en skipulagi er breytt.
Í matsáætlun fyrir Holtavörðuheiðarlínu 1 sem Landsnet gaf út 22. apríl á þessu ári segir m.a. um verkefnið: „Landsnet vinnur að og hefur áform um endurnýjun byggðalínunnar og er Holtavörðuheiðarlína 1 mikilvægur hluti þeirrar uppbyggingar. Holtavörðuheiðarlína 1 er matsskyld framkvæmd.“ Línan er á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar Landsnets 2020-2029 og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2024. „Í matsáætluninni er kynnt hvernig staðið verður að gerð umhverfismatsins, hvaða þætti umhverfisins áætlað er að rannsaka og hvaða hugmyndir hafa komið fram um valkosti. Landsnet leggur fram og rökstyður hvaða valkostir verða lagðir fram til umhverfismats.“ Finna má matsáætlunina inni á heimasíðu Landsnets.
Skipulagsvaldið heima fyrir
Þegar leggja á nýja byggðalínu um landið er eðli málsins samkvæmt fjölmargir sem hafa hagsmuna að gæta enda eru háreist línumannvirki áberandi í landinu. Auk bænda og annarra landeigenda má nefna hagsmunaaðila á borð við íbúa í sumarhúsabyggðum, ferðaþjónustu, veiðifélög og fjölmarga aðra. Bændur sem hafa verið í sambandi við Skessuhorn óttast að búið sé í raun að ákveða nýja lagnaleið fyrir Holtavörðuheiðarlínu 1 og um það fái þeir ekki nokkru um ráðið. Þeir óttast þau áhrif sem framkvæmd þessi hafi á byggð og búsetu og sakna mjög viðbragða af hálfu sveitarstjórna Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar. „Í þessu máli hefur mér fundist að sveitarfélagið hafi ekki staðið með sínu fólki, heldur láti draga sig áfram á hagsmunum sem allir eru á kostnað okkar íbúanna. Landsnet göslast áfram og sveitarfélagið sefur á verðinum. En ef það stendur til að breyta Borgarbyggð í „Ural hérað“ með vindmyllum og stóriðju, þýðir það væntanlega um leið að aðrar atvinnugreinar, eins og landbúnaður, laxveiði og ferðaþjónusta skaðast. Ef þetta er meiningin,“ segir viðmælandi Skessuhorns í hópi landeigenda í Borgarfirði. „Þá væri best fyrir alla að bara fá að vita það,“ bætir hann við.
Landeigandinn bendir á að málið sé í höndum sveitarstjórnar sem hafi jú skipulagsvaldið eins og áður segir. Honum fyndist eðlilegt á þessu stigi málsins að sveitarfélagið hefði gert Landsneti grein fyrir gildandi aðalskipulagi þar sem lagning nýrra háspennulína er ekki á dagskrá. „Ef það hefur verið gert, er óskiljanlegt hvers vegna Landsnet er með málið á þeim stað sem það er nú, með nýja stóra línu í undirbúningi auk þess að halda í gömlu línuna. En ef sveitarfélagið hefur nú þegar fallist á fyrirætlanir Landsnets, þá væri eðlilegt að íbúar sveitarfélagsins og aðrir landeigendur fengju að vita það.“
Á blaðsíðu 25 í gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar má lesa um opinbera stefnu sveitarfélagsins í þessum málum: http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=23634629127848933452
Hefði byggðaröskun í för með sér
Einn heimildarmaður Skessuhorns segir að nú í sumar sé Landsnet búið að eyða óhemju fjármunum í rannsóknir og virkjað fjölmargar verkfræðistofur og hinar fjölbreytilegustu stofnanir. „Nú á fundinum næstkomandi mánudag eru bara boðaðir þeir landeigendur sem eru undir gömlu línunni, en samt er alltaf sagt að fleiri lagnaleiðir séu til skoðunar. Einhverra hluta vegna hefur þessi upplýsingafundur næstkomandi mánudag ekki verið kynntur opinberlega. Þá hefur verið bent á að fyrirspurnum hafi ekki verið svarað um það sem máli skiptir, t.d. hvar tengipunktar verða á Holtavörðuheiðarlínu 1 fyrir vindmyllur. Málið fæst alls ekki rætt út frá raunverulegum forsendum. Það er t.d. engin þörf á nýrri byggðalínu til að uppfylla þarfir almennings og venjulegra fyrirtækja í landinu. Endurnýjun núverandi línu myndi sinna þeirri þörf fyllilega. Menn þurfa að velta þessu vel fyrir sér í hinu stóra samhengi. Er til dæmis eitthvað skrítið að við viljum ekki fórna okkar heimasveitum til þess að einhver óþekktur erlendur aðili geti grafið einhversstaðar upp bitcoin, eða gert tilraunir með kísilbræðslur á útnárum landsins. Það eru margar jarðir þar sem staðsetning nýrrar byggðalínu verður framkvæmd með eignarnámi. Þetta verkefnið mun því hafa verulega byggðaröskun í för með sér,“ segir bóndi á svæðinu í samtali við Skessuhorn. Báðir þeir heimildamenn sem vitnað er til hér í fréttinni báðust undan að koma fram undir nafni.
Ótímabær fundur
Að endingu bendir einn viðmælandi Skessuhorns úr Borgarfirði á að hann telji ekki tímabært að halda upplýsingafund með Landsneti svo lengi sem sveitarfélagið Borgarbyggð hafi ekki markað sér afstöðu í málinu með skýrum og afgerandi hætti. „Það er þannig að ef leggja á svona mannvirki hér um sveitir þá þarf sveitarfélagið að heimila það, veita framkvæmdaleyfi og breyta skipulagi. Það er líka þannig að hvorki sveitarfélagið eða Landsnet hafa svarað þeim fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram og Landsnet hefur neitað að veita okkur aðgang að vinnugögnum. Þannig að ég held að svona fundur eins og ráðgerður er næstkomandi mánudag sé alls ekki tímabær,“ segir heimildarmaður Skessuhorns.