Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti nýtt tónlistarfrumvarp fyrir ríkisstjórn sem samþykkti frumvarpið.
„Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um tónlist í fyrsta skipti en þar með er löggjöfin uppfærð og sameinuð fyrir allar listgreinar tónlistar. Frumvarpið útfærir einnig hlutverk og verkefni nýrrar Tónlistarmiðstöðvar sem á að taka til starfa eftir áramótin. Henni er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við tónlistarstarfsemi og styðja útflutningsverkefni allra tónlistargreina auk þess að sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Nýr tónlistarsjóður sameinar þrjá sjóði á sviði tónlistar sem starfræktir eru í dag og mun hann vera í umsýslu tónlistarmiðstöðvar," segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Frumvarpið tekur mið af drögum að tónlistarstefnu 2023–2030 sem unnin var samhliða samningu frumvarpsins. Með frumvarpinu er gildandi löggjöf um Sinfóníuhljómsveit Íslands jafnframt færð undir heildarlög um tónlist.