Jóhanna Marín Björnsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður hjúkrunarsviðs dvalar- og hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Þrjár umsóknir bárust um starfið og tekur Jóhanna Marín við því 1. janúar nk. Þetta kemur fram á FB síðu Brákarhlíðar.
Jóhanna Marín er 30 ára að aldri. Hún er stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar, lauk prófi í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands 2015 og lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2021. Hún hefur síðan þá starfað sem hjúkrunarfræðingur á Brákarhlíð. Á árunum 2008-2021 var hún einnig starfsmaður í aðhlynningu og gegndi öðrum störfum með hléum á Brákarhlíð, bæði samhliða námi og öðrum störfum.
Jóhanna Marín hefur síðustu ár kennt heilbrigðisfræði við Menntaskóla Borgarfjarðar, hún starfaði einnig um tíma sem verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi þar sem hún vann að velferðarstefnu fyrir Vesturland og loks hefur hún komið að sundþjálfun og fleiri störfum tengdum íþróttastarfsemi. Jóhanna Marín er í sambúð með Viktori Má Jónassyni. Þau eiga þrjú börn og hann á eina dóttur fyrir.
Sem forstöðumaður hjúkrunarsviðs Brákarhlíðar mun Jóhanna Marín m.a. bera ábyrgð og vera leiðandi í daglegri hjúkrunarþjónustu Brákarhlíðar, bera faglega ábyrgð á gæðum hjúkrunarþjónustu heimilisins, lyfjaeftirliti og eftirliti með búnaði sem að þjónustunni snýr, hafa umsjón með starfmannahaldi hjúkrunar Brákarhlíðar og vinna náið með öðrum stjórnendum heimilisins að áframhaldandi þróun þjónustu Brákarhlíðar, heimilisfólki til heilla.
Hagvangur hafði umsjón með ráðningarferlinu í samstarfi við framkvæmdastjóra Brákarhlíðar en einnig var Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur, lögfræðingur og fyrrum sviðsstjóri hjúkrunar á Landspítalanum til ráðgjafar við mat á umsóknum um starfið.