Á fundi í byggðarráði Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag var lagt fram yfirlit yfir fasteignir sveitarfélagsins og yfirlit um viðhaldsþörf eigna. Fram kemur í fundargerð að þetta hafi verið gert til upplýsingar og stefnumótunar vegna nýtingar fasteigna sveitarfélagsins til framtíðar. Hjá sveitarfélaginu fer nú fram greining og umræða um hvernig efnahagsreikningur og fjárbinding sveitarfélagsins styður við kjarnastarfsemi þess. Þar fellur eignarhald og rekstur félagsheimilia ekki undir kjarnastarfsemi.
„Byggðarráð vísar til sveitarstjóra að taka safn félagslegs húsnæðis sveitarfélagsins til skoðunar með það fyrir augum að auka dreifingu og að það endurspegli betur þá tegund húsnæðis sem spurn er eftir. Sala eigna kemur til greina,“ segir í fundargerð. Samþykkt var að fela sveitarstjóra að hefja samtal við meðeigendur sveitarfélagsins að félagsheimilum með nýtingu og eignarhald til framtíðar í huga. Sveitarstjóra var jafnframt falið að gera tillögu um hvar hefja skuli leit að samstarfsaðilum til lengri eða skemmri tíma með langtímaleigu í huga.
Varðandi skólahúsnæði vísaði byggðarráð til yfirstandandi vinnu með skólastefnu Borgarbyggðar og væntanlegrar niðurstöðu hennar. „Miðað við fjárfestingaráætlun sem kynnt var við fyrri umræðu að fjárhagsáætlun næsta árs er fyrirsjáanlegt að fjárfesting í skólahúsnæði mun aukast verulega á næstu árum svo sem með endurnýjun Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og stækkun Uglukletts. Eðlilegt er að samhliða sé skoðað hvar hægt er að draga úr fjárbindingu í skólahúsnæði og fækka fermetrum,“ segir í bókun ráðsins.
Til skýringar á Borgarbyggð nú fimm félagsheimili í sveitarfélaginu að hluta eða öllu leyti, þ.e. Þinghamar í Stafholtstungum, Brún í Bæjarsveit, Lyngbrekku á Mýrum og helmingshlut í Lindartungu í Kolbeinsstaðarhreppi. Einnig á sveitarfélagið Samkomuhúsið við Þverárrétt en búið er að samþykkja að selja húsið gegn málamyndagjaldi til Kvenfélags Þverárhlíðar.