Í gærkvöldi var hátíðarmessa í Reykholtskirkju í Borgarfirði þar sem sr. Hildur Björk Hörpudóttir var formlega sett í embætti sóknarprests. Fram kom að formleg innsetning sóknarprests hefur ekki verið í Reykholti í um fimmtíu ár. Innsetningu séra Hildar Bjarkar hefur í tvígang verið frestað vegna Covid-19.
Nú heitir prestakallið Reykholtsprestakall og falla sex sóknir í héraði og níu kirkjur undir það; Reykholtskirkja, Hvanneyrarkirkja, Bæjarkirkja, Lundarkirkja, Fitjakirkja, Gilsbakkakirkja, Síðumúlakirkja, Stóra-Ás kirkja og kapellan á Húsafelli. Heildar íbúafjöldi á svæðinu er ríflega þúsund.
Við athöfnina söng barnakór ásamt Reykholtskórnum og Dóra Erna Ásbjörnsdóttir organisti spilaði. Séra Gunnar Eiríkur Hauksson prestur í Stykkishólmi og prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi sá um innsetninguna í umboði biskups. Að endingu var boðið upp á kirkjukaffi.