
Fimmta tap Skallagríms í röð
Skallagrímur og Ármann mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og fór leikurinn fram í Fjósinu í Borgarnesi. Jafnt var á flestum tölum allan fyrsta leikhlutann sem var dæmigert fyrir leikinn því hann var spennandi frá byrjun til enda. Eftir fimm mínútna leik var staðan 11:10 fyrir Skallagrími en í stöðunni 16:13 settu gestirnir niður sjö stig í röð og leiddu með fjórum stigum við flautið, 16:20. Skallagrímsmenn voru fljótir til í öðrum leikhluta og höfðu jafnað metin á innan við mínútu en síðan tóku Ármenningar við sér og voru komnir með tíu stiga forystu eftir sex mínútur á klukkunni, staðan 26:36 fyrir Ármanni. Heimamenn með Björgvin Hafþór Ríkharðsson í fararbroddi náðu síðan með mikilli baráttu að minnka muninn í eitt stig fyrir hálfleik, staðan 38:39 Ármanni í hag.