Fimmtudaginn 17. nóvember síðastliðinn var Æskulýðsballið haldið í Hjálmakletti. Um er að ræða viðburð sem félagsmiðstöðin Óðal í Borgarnesi stendur fyrir árlega fyrir öll ungmenni á Vesturlandi.
Fram kemur í frétt á heimasíðu Borgarbyggðar að um 320 ungmenni hefðu mætt í Borgarnes til þess að skemmta sér saman og sáu DJ Egill Spegill og Herra Hnetusmjör um að halda uppi fjörinu. Þá segir einnig að 113 ungmenni hafi mætt frá félagsmiðstöðinni Óðali af þeim 147 sem búa í Borgarbyggð sem verður að teljast nokkuð góð mæting.
Óhætt er að segja að ballið hafi heppnast afar vel og það var ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér konunglega. Eina gagnrýnin sem heyrðist eftir ballið var að viðburðurinn mætti vera oftar á ári.
„Starfsfólk Óðals vill þakka foreldrum fyrir samstarfið á ballinu en hópurinn var vel sýnilegur á viðburðinum og einnig hafa foreldraröltin verið virkjuð á ný. Hópurinn stóð einnig vaktina í sjoppunni og hjálpuðu til við gæslu inni á ballinu. Það er dýrmætt að eiga góð samskipti við foreldra.“ segir í fréttinni á borgarbyggd.is.