
Fjölskyldutónleikar á sunnudaginn með Dúó Stemmu
Lokatónleikar Kalmans listafélags á þessu ári verða fjölskyldutónleikar sem haldnir verða í Vinaminni á Akranesi á fyrsta sunnudegi í aðventu, 27. nóvember nk. og hefjast kl. 14. Tvíeykið og gleðipinnarnir í Dúó Stemmu, þau Herdís Anna og Steef, bregða á leik og flytja vetrarskemmdegisdagskrá með jólalegu ívafi fyrir alla fjölskylduna. Þau munu leika sér með íslensk þjóðlög, fara með þulur og sögð verður hljóðsaga um vináttuna með hjálp allskyns hljóðfæra og hljóðgjafa m.a. víólu, tromma, sandpappírs og hrossakjálka. Steinaspil Páls á Húsafelli verður líka með í för. „Hljóðsagan fjallar um Fíu frænku sem er á ferðalagi með besta vini sínum Dúdda, en hann týnist. Fía leitar og leitar, en finnur hún Dúdda eða kannski bara eitthvað annað? Spennandi og skemmtileg saga sem lætur engan ósnortinn, segir í tilkynningu.