
Snæfell tapaði fyrir Þór Akureyri eftir átta leikja sigurhrinu
Þar kom að því. Eftir átta sigurleiki í röð í 1. deild kvenna í körfuknattleik þurftu Snæfellskonur að játa sig sigraða í gærkvöldi. Þær mættu fullar sjálfstraust norður yfir heiðar til að takast á við Þór Akureyri og útlit fyrir hörkuleik þar sem liðin sátu í 2. og 3. sæti deildarinnar en Snæfell þó með tveimur stigum meira í öðru sætinu. Þór byrjaði fyrsta leikhluta af miklum krafti og var kominn í 8:2 fljótlega í leiknum en Snæfell kom til baka og staðan 14:12 fyrir Þór eftir rúmar fimm mínútur. Jafnt var á með liðunum það sem eftir lifði af leikhlutanum en Snæfell átti síðasta orðið og leiddi með fjórum stigum, 17:21. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og enn var jafnt eftir tæpan fimm mínútna leik, 27:27. Þórskonur voru síðan sterkari fram að hálfleik og voru komnar fjórum stigum yfir þegar heyrðist í bjöllunni, hálfleikstölur 37:33 Þór í hag.