Þar kom að því. Eftir átta sigurleiki í röð í 1. deild kvenna í körfuknattleik þurftu Snæfellskonur að játa sig sigraða í gærkvöldi. Þær mættu fullar sjálfstraust norður yfir heiðar til að takast á við Þór Akureyri og útlit fyrir hörkuleik þar sem liðin sátu í 2. og 3. sæti deildarinnar en Snæfell þó með tveimur stigum meira í öðru sætinu. Þór byrjaði fyrsta leikhluta af miklum krafti og var kominn í 8:2 fljótlega í leiknum en Snæfell kom til baka og staðan 14:12 fyrir Þór eftir rúmar fimm mínútur. Jafnt var á með liðunum það sem eftir lifði af leikhlutanum en Snæfell átti síðasta orðið og leiddi með fjórum stigum, 17:21. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og enn var jafnt eftir tæpan fimm mínútna leik, 27:27. Þórskonur voru síðan sterkari fram að hálfleik og voru komnar fjórum stigum yfir þegar heyrðist í bjöllunni, hálfleikstölur 37:33 Þór í hag.
Heimakonur fóru síðan ansi vel af stað í byrjun þriðja leikhluta, skoruðu fyrstu tólf stigin og komu sér í vænlega stöðu, 49:33. Fyrsta stig Snæfells kom ekki fyrr en eftir sex mínútna leik þegar Cheah Rael Whitsitt hitti úr öðru víti sínu og Snæfell átti næstu sex stig áður en Þór bætti aftur í. Karen Lind Helgadóttir setti síðan niður þrist á lokasekúndunum og staðan 58:43 fyrir Þór. Snæfell náði síðan að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta þegar Minea Takala hitti úr þriggja stiga skoti og minnkaði muninn í fimm stig, 60:55 eftir tæpar fimm mínútur. En þá skelltu norðankonur í lás á lokakaflanum og sögðu hingað en ekki lengra, spiluðu geysigóða vörn á Snæfell sem skoraði aðeins tvö stig á móti tólf stigum Þórs og lokatölur öruggur sigur, 73:57 Þór í vil.
Stigahæstar hjá Snæfelli voru þær Cheah Rael Whitsitt sem var með 24 stig og 16 fráköst, Preslava Koleva var með 12 stig og Ylena Maria Bonett var með 11 stig. Hjá Þór var Eva Wium Elíasdóttir með 15 stig og 10 fráköst, Hrefna Ottósdóttir með 14 stig og Heiða Hlín Björnsdóttir með 12 stig.
Staðan í deildinni er þannig að Stjarnan er efst með 18 stig eftir 9 leiki, Þór og Snæfell eru næst með 16 stig en Snæfell með leik minna en Þór sem hefur leikið 11 leiki. KR og Hamar/Þór eru í 4. og 5. sæti með 12 stig eftir 11 leiki og tvö neðstu liðin eru Tindastóll með 4 stig og Breiðablik b er enn án stiga en bæði lið hafa leikið 11 leiki.
Næsti leikur Snæfells er á móti Tindastóli næsta miðvikudag í Stykkishólmi og hefst klukkan 19.15.