Borgarbyggð og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa í haust átt í viðræðum um leigu á húsnæði í eigu skólans fyrir starfsemi Slökkviliðs Borgarbyggðar á Hvanneyri. Fram kemur á heimasíðu Borgarbyggðar að samkomulag hafi náðst og er búið að skrifa undir samning.
„Þetta eru mikil gleðitíðindi enda er með þessu verið að tryggja öryggi íbúa sveitarfélagsins á Hvanneyri og nágrenni sem og í Skorradal,“ segir í frétt á heimasíðu Borgarbyggðar. Umrætt húsnæði er um 200 fermetrar að grunnfleti og nefnist iðulega Hjartarfjós, kennt við Hjört Snorrason skólastjóra Búnaðarskólans á Hvanneyri 1894-1907 og kennara þar til 1911. Hjörtur var bóndi á Ytri-Skeljabrekku í Andakíl 1907-1915 en í Arnarholti í Stafholtstungum frá 1915 til æviloka. Hjartarfjós þykir henta vel fyrir slökkviliðið en það mun nú hýsa dælubílinn Skorra sem fluttur var til geymslu á Bifröst fyrr í haust. Bíllinn er í eigu Skorradalshrepps en notaður af Slökkviliði Borgarbyggðar frá kaupum á honum árið 2009. Auk þess verður í húsinu annar nauðsynlegur búnaður slökkviliðsins og aðstaða fyrir slökkviliðsmenn.
„Slökkvilið Borgarbyggðar fagnar því að fá húsnæði fyrir slökkviliðsfólk, bíla og búnað á Hvanneyri. Við finnum einnig fyrir auknum áhuga sveitarfélagsins, Landbúnaðarháskólans og frá öðrum hagsmunaaðilum á framtíðar uppbyggingu á aðstöðu fyrir slökkviliðið á Hvanneyri. Slökkviliðið fagnar einnig þeirri umræðu og því samtali sem átt hefur sér stað að undanförnu varðandi brunamál á Hvanneyri, bæði við LbhÍ, Skorradalshrepp og einnig Íbúasamtök Hvanneyrar og nágrennis og vonum við svo sannarlega að það góða samtal haldi áfram. Hér lögðust allir á eitt og leystu þann vanda sem skapaðist í húsnæðismálum slökkviliðsins í haust. Að geta boðið fólkinu sem kemur til bjargar þegar kallið kemur, hvenær sem er sólarhringsins allan ársins hring, upp á viðunandi starfsaðstöðu skiptir mestu máli því án þeirra þurfum við enga aðstöðu og án þeirra ættum við ekkert slökkvilið,“ segir Heiðar Örn Jónsson varaslökkviðsstjóri í samtali við Skessuhorn.