Í kvöld eigast við ÍA og Skallagrímur í 1. deild karla í körfuknattleik og fer Vesturlandsslagurinn fram á heimavelli Skagamanna í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Liðin eru jöfn í 7. til 8. sæti í deildinni eftir átta leiki en bæði lið hafa unnið þrjá leiki og tapað fimm.
Það er því mikið undir í leiknum í kvöld og má búast við fjölmenni á pöllunum enda alltaf stuð og stemning þegar þessi lið mætast. Í leikjum liðanna á síðasta tímabili fögnuðu Skallagrímsmenn sigri í öllum þremur leikjunum og því hafa Skagamenn harma að hefna.
ÍA er með þrjá útlendinga innan borðs en það eru framherjinn Gabriel Adersteg, bakvörðurinn Lucien Christofis og miðherjinn Jalen Dupree sem hafa í vetur verið að skora að meðaltali í kringum 20 stig í leik. Þá hafa þeir efnilega leikmenn eins og hinn 17 ára fyrirliða liðsins, Þórð Frey Jónsson, sem er öflug þriggja stiga skytta og þá hafa þeir hinir rétt tvítugu, Davíð Alexander Magnússon og Tómas Andri Bjartsson vakið athygli í vetur.
Skallagrímur er með tvo útlendinga í herbúðum liðsins en það eru framherjinn Keith Jordan Jr. og miðherjinn Jason Ricketts sem hafa verið öflugir og þá sérstaklega Keith Jordan Jr. sem er með rétt yfir 30 stig að meðaltali í leik. Þá hefur framherjinn Björgvin Hafþór Ríkharðsson látið til sín taka með tæp 19 stig að meðaltali í leik og þeir Davíð Guðmundsson, Bergþór Ægir Ríkharðsson og Almar Örn Björnsson eru mikilvægir hlekkir í liðinu.
Það er því stóra spurningin hverjir fá montréttinn eftir leik og þó Skallagrímsmenn séu líklegri til sigurs má ekki afskrifa heimamenn sem mæta án vafa grimmir til leiks og ætla sannarlega að gera allt til að komast fyrir ofan nágranna sína í töflunni. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og aðgangseyrinn er kr. 1500 fyrir fullorðna og frítt fyrir börn.