Álftanes og ÍA mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var viðureignin í Forsetahöllinni á Álftanesi. Í fyrsta leikhluta var nánast jafnt á öllum tölum og munurinn aldrei meiri en fjögur stig á milli liðanna. Dúi Þór Jónsson hitti úr tveimur vítum fyrir heimamenn undir lokin og sá til þess að staðan var 21:17 Álftanesi í vil. Um miðjan annan leikhluta minnkaði Jalen Dupree forskotið í aðeins tvö stig með þriggja stiga stökkskoti fyrir ÍA og staðan 28:26 Álftanesi í vil. Þegar tæpar þrjár mínútur voru í hálfleik var staðan jöfn 36:36 en þá settu heimamenn þrjá þrista niður í röð á skömmum tíma og staðan í hálfleik 47:41 Álftanesi í hag.
Í byrjun þriðja leikhluta voru Álftnesingar ávallt skrefinu á undan en Skagamenn neituðu að gefast upp og þegar tæpar þrjár mínútur lifðu af leikhlutanum var munurinn aðeins fjögur stig, 57:53. Álftanes átti síðasta orðið og síðustu fjögur stigin á meðan Skagamenn hittu alls ekki neitt, staðan 61:53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Skagamenn hristu það af sér í fjórða leikhluta og voru fljótlega komnir yfir í leiknum, 66:68. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir var staðan 76:73 fyrir Álftanesi og allt á suðupunkti. Skagamenn náðu síðan að minnka muninn í tvö stig þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum en Cedrick Bowen hitti úr þriggja stiga skoti undir lokin og tryggði sigurinn. Naumur sigur heimamanna og þeirra áttundi í röð bláköld staðreynd, lokatölur 82:77 fyrir Álftanesi.
Stigahæstur hjá ÍA var Jalen Dupree með 23 stig og 19 fráköst, Gabriel Adersteg var með 19 stig og Lucien Christofis með 14 stig. Hjá Álftanesi var Dúi Þór Jónsson með 18 stig og 11 stoðsendingar, Dino Stipcic með 15 stig og Eysteinn Bjarni Ævarsson með 11 stig og 12 fráköst.
Næsti leikur Skagamanna er næsta föstudag á móti Skallagrími í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi og hefst Vesturlandsslagurinn klukkan 19.15.