
Ostar frá MS í Búðardal unnu til alþjóðlegra verðlauna
Ostar sem framleiddir eru á starfsstöð Mjólkursamsölunnar í Búðardal tóku þátt í alþjóðlegri matvælakeppni sem fram fór í Herning í Danmörku um liðna helgi. Nítján ostar voru sendir til keppni í sjö flokkum. Garðar Freyr Vilhjálmsson, framleiðslustjóri MS í Búðardal, segir vörurnar almennt hafa fengið góða dóma. Nokkrir ostar unnu til verðlauna. ,,Þetta er alþjóðleg keppni en stærsti hluti þátttakenda kemur frá Norðurlöndunum. Cheddar osturinn okkar fékk silfurverðlaun í flokki mozzarella- og cheddarosta en vinsældir hans hér á Íslandi hafa stóraukist síðustu árin. Á tíu árum hefur framleiðsla tífaldast hjá okkur. Því eru áform um að setja upp nýja og stærri ostagerð fyrir Cheddar og Havarti osta með kryddi í Búðardal á næsta árinu. Í flokki hvítmygluosta fékk Bónda brie silfurverðlaun og Dala brie bronsverðlaun en í þeim flokki kepptu um 20-30 ostar svo þetta er mikill heiður. Það er líka ánægjulegt að fá svona jákvæða endurgjöf á vörurnar okkar svo við erum mjög stolt. Ekki er hægt að framleiða alla þessa flottu osta án þess að hafa gott hráefni og góðan hóp starfsmanna, þar koma Dalirnir sterkir inn,“ segir Garðar í samtali við Skessuhorn.