Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld býr á Hólum í Hvammssveit í Dölum ásamt fjölskyldu sinni en þar rekur hún einnig dýragarð og dýraathvarf. Síðustu rúm tíu ár hefur hún unnið í einu matvöruversluninni sem starfrækt er í Búðardal en sú verslun hefur á þeim tíma verið undir merkjum Samkaupa, sem Samkaup strax, Kjörbúðin og nú Krambúðin. Mánudaginn 31. október var Rebeccu sagt upp störfum, fyrirvaralaust, vegna skipulagsbreytinga innan fyrirtækisins. Rebecca segist í viðtali við Skessuhorn átta sig á því núna að hún hafi ekki verið metin að verðleikum á vinnustaðnum en hún mátti sæta leiðinlegri framkomu frá yfirmanni og samstarfsfólki, sem hún veit núna að var einelti.
Rebecca ákvað eftir samtal við stéttarfélagið sitt að birta mynd af uppsagnarbréfinu á Facebook og er óhætt að segja að það hafi vakið upp mikil og sterk viðbrögð í þjóðfélaginu. Rebecca ákvað fyrst og fremst að greina frá uppsögninni á Facebook til þess að láta vini sína og viðskiptavini vita af hverju hún væri ekki lengur í vinnunni. Henni fannst þeir eiga skilið að vita sannleikann.
Viðtal við Rebeccu má lesa í nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag.