
Greinahöfundar standa hér við söguskilti í Akraneshöllinni sem sýna upphaf Knattspyrnufélagsins Kára og Knattspyrnufélags Akraness. F.v. Gísli, Haraldur, Gunnar, Jón og Þröstur.
Hvetja bæjaryfirvöld til að glata ekki sterkri ímynd
„Aðstaðan á Jaðarsbökkum mætir ekki kröfum. Til þess að stuðla að áframhaldandi sterkri ímynd Akraness sem íþrótta- og knattspyrnubæjar er bæjarfélaginu og íþróttahreyfingunni brýnt að sameinast um bætta aðstöðu knattspyrnufélagsins á Jaðarsbökkum. Að glata sterkri ímynd og öflugu æskulýðs- og afreksstarfi er ekki valkostur.“ Þetta eru lokaorð í aðsendri grein í Skessuhorni í dag sem fimm áhugamenn um knattspyrnu á Akranesi, þeir Gísli Gíslason, Gunnar Sigurðsson, Haraldur Sturlaugsson, Jón Gunnlaugsson og Þröstur Stefánsson rita. Í greininni fara þeir nokkrum orðum um knattspyrnubæinn sem sé hugtak sem eigi sannarlega við um Akranes. Þar skrifa þeir um „Enska deildina,“ nýútkomna bók Björns Þórs Björnssonar og knattspyrnubæinn sinn.