„Ísland á mikla möguleika á að verða leiðandi í nýsköpun og framþróun ræktunar og framleiðslu afurða úr þörungum ef rétt er haldið á spöðunum,“ segir í tilkynningu frá nýstofnuðum Samtökum þörungafélaga á Íslandi (e. Algae Association of Iceland, AAI). Fyrsti fyrsti stjórnarfundur hinna nýstofnuðu samtaka fór fram síðastliðinn fimmtudag. Stofnendur félagsins eiga það sameiginlegt að stunda sjálfbæra öflun, ræktun, rannsóknir, fræðslu, vinnslu, vöruþróun og sölu á afurðum tengdum þörungum. Yfir 20 fyrirtæki og stofnanir standa að stofnun félagsins.
Tilgangurinn með nýju samtökunum er að skapa vettvang fyrir umræðu um rekstrarumhverfi sem snýr að þörungastarfsemi á landi, grunnsævi og á hafinu úti fyrir Íslandi. Samtökin vilja einnig stuðla að aukinni þekkingu á starfsemi þörungafyrirtækja á Íslandi og þeim miklu tækifærum sem felast í þörungum. Þá munu samtökin leggja mikið upp úr alþjóðlegu samstarfi greinarinnar og eru þau þegar í viðræðum við sambærileg félög á alþjóðavísu.
Í fyrstu stjórn samtakanna hafa verið kjörin Sigurður Pétursson stofnandi Ræktar fræðslumiðstöðvar lagareldis, sem jafnframt er formaður, Tryggvi Stefánsson aðstoðarframkvæmdastjóri Algalíf, Áshildur Bragadóttir endurmenntunar- og nýsköpunarstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands, Eydís Mary Jónsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur og Kristinn Árni Lár Hróbjartsson framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi.
Þörungar eru taldir munu leika stórt hlutverk í baráttunni gegn loftslagsvandanum á næstu árum en þörungar eru þeim eiginleikum gæddir að geta fjarlægt kolefni úr koltvísýringi í andrúmsloftinu og skilað því til baka sem súrefni. Nú stendur yfir loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP27, í Kaíró í Egyptalandi þar sem kallað er eftir því að gripið verði til umfangsmikilla aðgerða til að stemma stigu við loftslagsvandanum.
Sigurður Pétursson, formaður stjórnar Samtaka þörungafélaga á Íslandi segir að nú sé mikil gerjun hér á landi sem og erlendis í þessari atvinnugrein sem megi ekki síst rekja til umhverfisvitundar fólks þar sem þörungar eru þær lífverur sem binda mest af koltvíoxíði í heiminum. „Þörungar hafa 400 sinnum meiri virkni en sambærilegt svæði skóglendis. Höfin eru lungu jarðarinnar og með sjálfbærri nýtingu og ræktun bæði á hafi og landi er hægt að framleiða vörur með jákvæðum umhverfisáhrifum. Einstakar náttúruaðstæður með grænni raforku og jarðvarma hafa þegar komið Íslandi á kortið í smáþörungaræktun og vinnslu og það er ýmislegt að gerjast í stórþörungum. Þörungaafurðir eru margvíslegar og eru m.a. nýttar til kolefnisförgunar, dýrafóðurs, áburðar og umhverfisvænnar matvæla- og lyfjaframleiðslu. Ísland á mikla möguleika á að verða leiðandi í nýsköpun og framþróun ræktunar og framleiðslu afurða úr þörungum ef rétt er haldið á spöðunum,“ segir Sigurður Pétursson.