Álftanes og Skallagrímur áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn á slóðum forseta vors. Jafnt var á flestum tölum fyrstu mínútur leiksins en síðan tóku Skallagrímsmenn kipp og voru komnir með tíu stiga forystu eftir tæpar fimm mínútur í fyrsta leikhluta. Heimamenn náðu síðan að koma til baka og staðan 22:24 gestunum í vil þegar flautan gall. Um miðjan annan leikhluta var enn mjótt á munum, 30:34, en þá náðu Skallagrímsmenn frábærum kafla þar sem þeir skoruðu 18 stig gegn aðeins níu stigum Álftaness og leiddu með 13 stigum í hálfleik, 39:52.
Allt leit vel út fyrir gestina í fyrsta hluta þriðja leikhluta, þeir héldu Álftnesingum vel frá sér og voru með tíu stiga forystu um miðbik leikhlutans. En þá hrukku heimamenn í gang og náðu hægt og rólega að minnka muninn en Orri Jónsson hitti úr tveimur vítum og sá til þess að Skallagrímur var með tveggja stiga forystu fyrir síðasta leikhlutann, 72:74. Álftanes sem hafði unnið sex sigurleiki í röð og stefndi að félagsmeti var sterkari í lokahlutanum og náði snemma nokkurra stiga forskoti. Skallagrímsmenn voru þó ekki á því að gefa neitt og höfðu jafnað eftir fimm mínútna leik, staðan 83:83. Heimamenn settu þá aftur í gír og voru komnir með sjö stiga forystu þegar tæp ein mínúta lifði af leiknum. Gestirnir voru með engin svör undir lokin og lokatölur 98:91 Álftanesi í hag.
Keith Jordan Jr. var stigahæstur hjá Skallagrími með 32 stig og 15 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson var með 24 stig og 10 fráköst og Kristján Örn Ómarsson með 9 stig. Hjá Álftanesi var Eysteinn Bjarni Ævarsson með 24 stig, Dino Stipcic var með 24 stig og 11 fráköst og Dúi Þór Jónsson með 24 stig og 11 stoðsendingar.
Næsti leikur Skallagríms er á fimmtudaginn gegn Selfossi í Fjósinu í Borgarnesi og hefst klukkan 19.15.