
Úr leik ÍA og Hrunamanna á föstudaginn. Ljósm. vaks
Skagamenn töpuðu á móti Hrunamönnum
ÍA og Hrunamenn mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og fór leikurinn fram á Skipaskaga. Gestirnir byrjuðu af miklum krafti í leiknum á meðan heimamenn voru alveg meðvitundarlausir, staðan 2:18 Hrunamönnum í vil eftir fimm mínútna leik. Skagamönnum gekk illa að minnka muninn en Gabriel Adersteg setti niður síðustu sex stigin í fyrsta leikhluta og staðan 21:29 fyrir gestunum. Munurinn hélst í kringum tíu stigin fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta en eftir rúman sex mínútna leik höfðu Skagamenn náð forskoti gestanna niður í fimm stig, staðan 39:44. Þá tóku Hrunamenn við sér á ný og voru komnir með þægilega stöðu fyrir hálfleik, 44:56.