
Átthagafræðinámið í Snæfellsbæ hlýtur Íslensku menntaverðlaunin
Íslensku menntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, 2. nóvember. Meðal þeirra verkefna sem tilnefnd höfðu verið til verðlauna í flokknum framúrskarandi þróunarverkefni var átthagafræðikennsla í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Skemmst er frá því að segja að skólinn hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2022 í þeim flokki. Fern önnur menntaverðlaun voru afhent við sama tækifæri og verða þau kunngjörð í kvöld á þætti í Ríkissjónvarpinu. Fulltrúar Grunnskóla Snæfellsbæjar sem tóku við verðlaunum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands voru þau Hilmar Már Arason skólastjóri og Vilborg Lilja Stefánsdóttir ásamt átthagafræðiteymi skólans og þremur nemendum sem voru fulltrúar skólans.
Stubbalækjarvirkjun ruddi brautina
Ljóst er að þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir Grunnskóla Snæfellsbæjar og þá áherslu sem búið er að leggja á kennslu í átthagafræði allt frá árinu 2009 þegar formlega var lagður grunnur að náminu með nýrri skólastefnu. Hilmar Már Arason skólastjóri segir í samtali við Skessuhorn að raunverulegt upphaf verkefnisins megi ef til vill rekja enn lengra aftur, eða til ársins 2003 þegar Stubbalækjarvirkjun við Lýsuhól hafi verið gerð. Fyrir það verkefni voru Haukur Þórðarson og nemendur hans útnefndir Varðliðar umhverfisins. Árið 2009 höfðu skólar í sveitarfélaginu verið sameinaðir og kviknaði þá áhugi meðal starfsfólks Grunnskóla Snæfellsbæjar fyrir aukinni áherslu á nám nemenda um heimabyggð sína. Í framhaldinu var skipuð nefnd sem vann að því að innleiða námsgreinina átthagafræði í grunnskólanum og verkefninu var formlega ýtt úr vör.
Mikill heiður
Hilmar Már skólastjóri segist að vonum vera afar stoltur af þessari vikurkenningu. „Þetta er mikill heiður fyrir skólann og í rauninni allt samfélag okkar, því það eru allir þátttakendur í þessu verkefni. Átthagafræðiteymið er hópur kennara sem skipuleggur og fylgir verkefninu eftir. En það er einnig allt starfsfólk skólans, nemendur, sveitarfélagið, fyrirtæki og stofnanir einnig. Það er mikils um vert að börnunum finnst þetta gaman, þau finna að samhliða átthagafræðinni fá þau aukna fjölbreytni í nám og útivist. Það hafa að minnsta kosti þrjár mastersritgerðir verið skrifaðar um þetta nám hjá okkur,“ segir Hilmar Már og áréttar að verkefnið sé í sífelldri þróun. „Í raun er verið að kenna einhverja átthagafræði í öllum skólum landsins. Við höfum hins vegar verið að gera þetta með markvissari hætti og erum með sér námskrá í átthagafræði. Nú að undanförnu höfum við verið að fara í aukið samstarf við Þjóðgarðinn og það eru vissulega sóknarfæri fyrir okkur að nú er verið að taka í notkun nýjaþjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Þá eru einnig aukin sóknarfæri í þessu námi okkar með aukinni ferðaþjónustu á svæðinu. Við erum aftur að fara í ferðir á jökulinn, Láki tours hefur stutt okkur með siglingum, hellaskoðunarferðir eru farnar, skógrækt stunduð, birkifræsöfnun og sitthvað fleira sem allt er hluti af námskrá sem er í sífelldri þróun,“ segir Hilmar Már.
„Í raun er það því allt samfélagið hér í Snæfellsbæ sem er að hljóta þessa viðurkenningu. Átthagafræðinámið er að draga fram það jákvæða í samfélaginu okkar og opnar augu nemenda fyrir þeim tækifærum sem eru á Snæfellsnesi öllu,“ segir skólastjórinn.
Fræðsla um grenndarsamfélagið
„Ákveðið var að námið gæfi möguleika á uppbroti hefðbundins náms, með sérstaka áherslu á upplifun sem lykilþátt í náminu,“ segir á heimasíðu verkefnisins. „Haustið 2009 fékk skólinn styrk úr Vonarsjóði til að búa til námskrá í átthagafræði og tilraunaútgáfa kom út í janúar 2010. Átthagafræði er fræðsla um grenndarsamfélagið þar sem lykilþættir eru náttúra, umhverfi og saga bæjarfélagsins. Námsgreinin snýst ekki síður um að nemendur kynnist samfélagi nútímans og þeim möguleikum sem þar búa til framtíðar. Í átthagafræði er áhersla lögð á vettvangsferðir, upplifun, kynningar, viðtöl, miðlun, tjáningu og sköpun. Lögð er áhersla á að nemendur upplifi eigið samfélag en á þann hátt er stuðlað að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir í Snæfellsbæ. Með þessu móti byggir Grunnskóli Snæfellsbæjar upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengir nám nemenda veruleikanum í bæjarfélaginu og eykur um leið fjölbreytni í námi,“ segir í námslýsingu.
Markmið með átthagafræðslunni er að við lok grunnskólagöngu hafi námið skilað nemendum góðri þekkingu á heimabyggð sinni og kennt þeim vinnubrögð sem munu nýtast þeim vel í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi eða þátttöku í atvinnulífi. Námskrá í átthagafræði er í tveimur hlutum, annars vegar fyrir starfsstöðvarnar norðan Fróðárheiðar; Ólafsvík og Hellissand og hins vegar fyrir starfsstöðina sunnan heiðar; Lýsudeild. Í námskránni eru markmið hvers bekkjar sett fram og viðfangsefni skilgreind. Námskráin er fjölbreytt og gefur möguleika á ólíkum útfærslum í kennslu.