Fréttir
Samsett mynd af einsöngvurunum Jónu G. Kolbrúnardóttur sópran og Hrólfi Sæmundssyni baritón.

„Þetta er verkið sem allir elska“

Rætt við Hilmar Örn organista og kórstjóra á Akranesi

Laugardaginn 5. nóvember verður eitt fegursta verk tónbókmenntanna flutt í Hafbjargarhúsinu á Breið á Akranesi. Það er verkið Sálumessa (Requiem) eftir Gabriel Fauré. „Alla kóra og alla kórstjóra dreymir um að gera þetta verk,“ segir Hilmar Örn Agnarsson organisti og kórstjóri Akraneskirkju í samtali við Skessuhorn. „Erlendis er svo mikil hefð fyrir að um nóvember sé mánuður dauðans, þegar náttúran er deyjandi, laufin falla af trjánum og myrkrið eykst. Þá spila menn Sálumessu (Requiem) til að komast í gegnum það tímabil og allt í einu verður þá dauðinn eins og vögguvísa, svo ljúfur,“ segir Hilmar aðspurður um aðdraganda þess að verkið er nú flutt á Akranesi en Fauré samdi þetta verk fyrir foreldra sína. Sjálfur sagði Fauré sálumessu sína einkennast frá upphafi til enda af trú á eilífa hvíld í dauðanum, hann leit á dauðann sem frelsun fremur en kvalarfulla reynslu.

Hafbjargarhúsið er miðalda dómkirka

Verkið verður flutt í Hafbjargarhúsinu og segir Hilmar þann stað ekki hafa orðið fyrir valinu að ástæðulausu. „Þetta er svo hrátt húsnæði, svona gömul fiskvinnsla og með því að flytja verkið þar vonumst við til að ná að tengja gamla tímann, fiskinn á Akranesi og svona hrátt umhverfi við svona fallega og ljúfa stund. Hljómburðurinn í Hafbjargarhúsinu er líka alveg stórkostlegur, alveg eins og miðalda dómkirkja og þess vegna erum við þarna. Þetta er eina miðalda dómkirkjan á Akranesi,“ segir Hilmar.

Elífðarglugginn

Verkið tekur um 45 mínútur í flutningi og er undir stjórn Hilmars, en hann var fyrr í haust ráðinn inn sem kórstjóri og organisti Akraneskirkju. „Ég ætla að koma með smá reykelsi og sjá hvort að fiskifýlan fari út úr húsinu,“ segir Hilmar sposkur. „Við ætlum líka að kveikja á mörgum kertum og reyna að fá fólk til þess að upplifa flutning verksins sem heilaga stund á svona stað, í gamalli fiskvinnslu.“

Í Hafbjargarhúsinu er uppi myndlistarsýning listakonunnar Jaclyn Poucel og segir Hilmar listaverk hennar passa vel með flutningi Sálumessu. „Mér finnst myndirnar hennar tala til eilífðarinnar og svo er allt húsið hvítt þannig að það er svolítið eins og við séum að horfa inn í eilífðargluggann,“ segir Hilmar og bætir við. „Nema fiskifýlan, hún heldur okkur á jörðinni,“ segir Hilmar og hlær.

Fólk mæti í góðri yfirhöfn

Flytjendur verksins eru Kór Akraneskirkju ásamt einsöngvurunum Jónu G. Kolbrúnardóttur sópran og Hrólfi Sæmundssyni baritón auk átta manna strengjasveitar. Konsertmeistarinn Una Sveinbjarnardóttir leikur á einleiksfiðlu, Elísabet Waage leikur á hörpu og Steingrímur Þórhallsson á orgel. „Við tókum prufu í Hafbjargarhúsinu um daginn og það kom mjög vel út. Það var svo kalt að tónninn var voða skýr og myndaði skemmtilegt bergmál,“ segir Hilmar og bætir við að reynt verði að kynda húsið lítillega fyrir laugardaginn. Þó vill hann hvetja fólk til að mæta í góðri yfirhöfn.


Salurinn verður stólaður upp og verða sæti fyrir 240 manns. Miðasala er við inngang og er aðgangseyrir 3.500 krónur.

„Þetta er verkið sem allir elska“ - Skessuhorn