Komedíuleikhúsið sýnir sýninguna Tindátarnir á Bókasafni Akraness kl. 17:30 í dag. Sýningin er byggð á ljóðabókinni Tindátarnir eftir Stein Steinarr og er sett upp í skuggaleikhúsformi. Sýningin er ætluð börnum á yngsta stigi leikskóla upp í eldri stig grunnskóla. Soffía Björg Óðinsdóttir, tónlistarkona frá Einarsnesi í Borgarfirði, semur tónlistina við verkið. Sýningin hefur verið sýnd í grunnskólum víða um land en tvær sýningar verða í Gaflaraleikhúsinu í Reykjavík 12. og 19. nóvember.
Viðtal við Soffíu Björg mun birtast í næsta tölublaði Skessuhorns þar sem hún m.a. talar um sýninguna Tindátarnir. Hér er brot úr því viðtali:
,,Þetta er barnaleikrit seim heitir Tindátarnir fyrir Kómedíuleikhúsið á Þingeyri sem er svona skuggaleikhús með skuggabrúðum. Þetta var svolítið kapp við tímann en ég er með samstarfsmann hérna uppi í sveit sem heitir Jakob Grétar Sigurðsson frá Varmalæk og við tókum efnið upp þar. Þau eru byrjuð að sýna þetta út um allt land núna, m.a. í grunnskólum. Þetta er ótrúlega falleg sýning en hún fjallar um stríð og einræðisherra, ég bjóst ekki við hvað þetta myndi ríma vel við heimsmyndina í dag þegar ég tók verkefnið að mér fyrir ári síðan. Sagan er eftir samnefnda bók eftir Stein Steinarr. Ég fékk 30 erindi sem ég var beðin um að semja tónlist við og það var ákveðin áskorun. Ég skipti þessu upp í senur til að skapa mismunandi stemmningu og hafði handrit frá leikhúsinu til viðmiðunar en ég er eiginlega líka sögumaður, þannig að ég syng og tala. Ég var farin að leika þetta alveg út eftir hvatningu og leiðsögn frá Þóri Tulinius, leikstjóra, og þurfti að fara mjög langt út fyrir minn þægindaramma til að skila verkefninu vel af mér. Eftir þetta fannst mér þetta svo ekkert mál og bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Soffía.