
Hætti við að fara í hjúkrunarfræði en er nú nýr framkvæmdastjóri Brákarhlíðar
Rætt við Ingu Dóru Halldórsdóttur sem nýlega tók við starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar- og dvalarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Hún lætur af störfum 1. nóvember sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands eftir 16 ár í því starfi.
Inga Dóra er alin upp á bænum Jarðbrú í Svarfaðardal til 15 ára aldurs. Foreldrar hennar bjuggu þar með blandaðan búskap, en hún er yngst sex systkina og eina stelpan í systkinahópnum. ,,Elsti bróðir minn er 18 árum eldri en ég og yngsti bróðir minn er sjö árum eldri en ég en við erum öll alsystkini. Ég sagði við mömmu að ég væri algjör bútasaumur, bara búin til úr einhverjum restum,“ segir Inga Dóra hlæjandi. ,,Pabbi og mamma bregða búi 1986 og flytja inn á Akureyri svo ég byrja í menntaskólanum þar. Pabbi deyr svo ári seinna en hann var hjartasjúklingur. Þannig að við mæðgur búum þarna saman menntaskólaárin mín en eftir útskrift vissi ég ekki alveg hvað ég vildi gera. Ég skráði mig reyndar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri en ég var ekki alveg tilbúin og hætti við. En það er svona svolítið skondið í dag þar sem ég er núna komin hingað á Brákarhlíð,“ segir Inga Dóra þegar blaðamaður Skessuhorns settist niður með henni í spjall.
Fluttu frá Noregi til Borgarness
Eiginmaður Ingu Dóru er Páll Snævar Brynjarsson, framkvæmdarstjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, en þau fluttu m.a. til Noregs til að stunda nám áður en þau flytja í Borgarnes. ,,Ég eignast dóttur mína, Ástdísi, árið 1993 og var bara ein með hana. Ég flutti suður og vann þar til að byrja með í SPRON en skráði mig síðan í félagsfræði með atvinnulífsfræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Það var ákaflega gagnlegt og skemmtilegt nám. Áður en ég byrjaði í háskólanum var ég búin að kynnast Palla. Það hafði alltaf blundað í mér að fara í nám erlendis en mig langaði líka til að víkka sjóndeildarhringinn. Ég fann þarna nám í Noregi í bæ sem heitir Volda en það er háskólabær ekki langt frá Álasundi. Við Palli skráðum okkur í sama námið sem var blanda af stefnumótun og stjórnun. Við kláruðum námið og fluttum svo þaðan í Borgarnes.“
{ "name": "core/pullquote", "attributes": [], "saveContent": "<figure class=\"wp-block-pullquote\"><blockquote><p><strong>,,Í kjölfar þessa símtals leggjumst við undir feld en við fengum tvo sólarhringa til að taka ákvörðun\"</strong></p></blockquote></figure>", "innerBlocks": [] }
Fengu símtal frá Borgarnesi
Hrein tilviljun varð til þess að hjónin enduðu í Borgarnesi, en þau höfðu enga tengingu á svæðið. ,,Þegar við erum að ljúka námi í Volda árið 2002 vorum við staðráðin í því að flytja heim en við vissum ekki alveg hvert. Páll er úr Skagafirðinum en hann var sveitarstjóraefni þar í kosningum sem stóðu yfir á þessum tíma. Svo æxluðust hlutirnir þannig að það gekk ekki eftir, en þá var stefnan tekin á að flytja í Eyjafjörðinn og samtal um starf þar langt komið þegar að allt í einu kemur símtal úr Borgarnesi eftir kosningarnar þar sem honum var boðin staða bæjarstjóra í Borgarbyggð.
Við höfðum engar tengingar hingað en höfðum keyrt um Borgarfjörðinn sumarið sem við fluttum út og höfðum þá orð á því að það væri ábyggilega mjög gott að búa í héraðinu. Í kjölfar þessa símtals leggjumst við undir feld en við fengum tvo sólarhringa til að taka ákvörðun ef ég man rétt. Við þurftum t.d. að ræða málin við Ástdísi en henni leist ekkert á þetta fyrst, en við sýndum henni m.a. myndir á netinu úr Borgarfirði, t.d. af sundlauginni og þá keypti hún þetta alveg. Við ákváðum að láta slag standa og sjáum ekki eftir því,“ segir Inga Dóra um ákvörðun þeirra hjóna að flytja í Borgarnes.

Hefur sinnt sama starfi síðan 2006
Inga Dóra tók til þeirra ráða að skrá sig í kór til að kynnast samfélaginu. ,,Við eignumst Brynjar Snæ, son okkar, úti og komum með hann heim átta mánaða gamlan, þannig að ég var heimavinnandi til að byrja með. Páll var fljótur að komast inn í samfélagið í sínu starfi en ég ákvað að skrá mig í kór og fór í Samkór Mýramanna. Mér fannst það mjög góð leið til að tengjast fólkinu í héraðinu og einnig til að kynnast t.d. þessum stóru ættum og læra aðeins á tengingar fólksins. Það að fara í þennan kór gaf mér mjög mikið. Ég fæ síðan starf hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, en í þeirri vinnu kom ég m.a. að gerð vaxtarsamnings sem var og hét og við t.d. lögðum grunn í þeirri vinnu að búsetuskilyrðakönnun sem hefur verið keyrð síðan og er núna notuð á landsvísu. Mjög skemmtilegt að sjá það í dag, þarna er verið að afla upplýsinga um samfélagið og búsetuskilyrði, eitthvað sem skiptir heilmiklu máli. Fyrst var þetta bara hjá SSV, síðan fór þetta að stækka og það er ekkert svo langt síðan að þessi könnun var gerð á landsvísu. Þetta var 2004 en árið 2005 byrja ég að vinna sem ráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni, ég leysi svo forvera minn af sem framkvæmdastjóra 2006. Hún ákveður síðan að koma ekki aftur og mér var boðið starfið. Ég hef sinnt því starfi síðan þá og þangað til núna 1. nóvember 2022.“
Vill taka þátt í þróuninni
Inga Dóra segist spennt fyrir viðfangsefnunum í nýju starfi. ,,Ég var farin að hugsa mér til hreyfings, þetta var orðinn ágætis tími hjá Símenntunarmiðstöðinni. Mjög lifandi og skemmtilegur geiri, maður fær mikla innsýn í atvinnulífið í landshlutanum og í raun á landinu öllu. Svo sá ég þetta starf auglýst og það kallaði á mig, bæði hef ég gaman af stjórnun, ég hef gaman af því að vinna með fólki og af mannlegum samskiptum. Mér finnst viðfangsefnin spennandi en ég er að læra mikið af nýjum hlutum. Þetta er mjög ólíkt því sem ég hef verið að gera, nema það að auðvitað mun ég leggja mikla áherslu á fræðslumálin fyrir starfsfólkið. Af því að ég þekki það og veit hvað það skiptir miklu máli fyrir þróun fyrirtækja og stofnana. Svo eru auðvitað öldrunarmálin stór málaflokkur og fer stækkandi. Hlutfall þjóðarinnar fer sífellt stækkandi sem heyrir undir þennan málaflokk og það er mikilvægt að þeim málaflokki sé sinnt vel. Það má alltaf gera betur og mig langar að taka þátt í þessari þróun og leggja mitt af mörkum ef ég mögulega get. Það þarf t.d. líka að vinna að nýsköpun í þessum geira eins og öðrum,“ segir Inga Dóra.
Ætlar að gefa sér tíma til að kynnast starfseminni
Starfsemi Brákarhlíðar er umfangsmikil en Inga Dóra segist ekki koma inn með fastmótaðar hugmyndir. ,,Þetta er stór vinnustaður en hér eru tæplega 90 manns á launaskrá. Þessi staður snertir líka svo marga í samfélaginu og ég er mjög þakklát fyrir að hafa verið ráðin í þetta starf. Heimilisfólkið, aðstandendur og starfsfólkið, þetta er stór hópur sem kemur við á heimilinu og hefur tengingar út um allt. Fólk kemur ekki bara úr héraðinu, heldur víða að þannig þetta er gríðarlega umfangsmikil starfsemi. Ég tek hérna við mjög góðu búi. Ég ætla að gefa mér tíma til að kynnast starfseminni, hvernig hún er er byggð upp og út frá því mun ég svo örugglega mynda mér skoðanir á því hvernig hægt sé að breyta hlutum til betri vegar.“

Þjónustuíbúðir og stúdentagarðar
Inga Dóra situr í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar en nú er fyrirhuguð bygging á fjölbýlishúsi þar sem nemendagarðar og þjónustuíbúðir á vegum Brákarhlíðar fyrir 65+ verða í sömu byggingu. ,,Ég kom að þessu verkefni hinum megin frá því ég er í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar. Við höfum þar verið að reyna að finna lausnir varðandi nýja nemendagarða. Þegar það fór að kvisast út að Brákarhlíð væri að skoða að fara í framkvæmdir á þessari lóð höfðum við samband við Bjarka forvera minn og spurðum hvort það væri möguleiki að fara í samstarf. Það var mjög vel tekið í þessa hugmynd og boltinn fór að rúlla. Húsið verður á fjórum hæðum, þ.e. nemendagarðar á fyrstu hæðinni og 12 íbúðir samtals fyrir 65+ á næstu þremur hæðum. Það eru komin drög að teikningu af þessu húsi, en það hægði á undirbúningsvinnunni vegna framkvæmdastjóraskipta hérna. Þetta er búið að fara í gegnum deiliskipulag hjá Borgarbyggð sem sveitarstjórn hefur samþykkt og nú eru deiliskipulagsbreytingar til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun eftir því sem ég best veit. Hér er verið að vinna ákveðið frumkvöðlastarf á landsvísu, en ég veit ekki til þess að annars staðar á landinu séu nemendagarðar fyrir framhaldsskólanema og íbúðir fyrir 65+ í sömu byggingu. Þetta býður upp á mikla möguleika og það er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Láta kynslóðirnar tala saman og svo væri gaman að auka samstarf Brákarhlíðar við aðrar menntastofnanir. Það skiptir öllu máli fyrir okkur á Brákarhlíð að vera í góðu samstarfi við samfélagið. Mér hefur alltaf fundist orðspor Brákarhlíðar vera gott og ég vil viðhalda því, þess vegna skiptir máli að hlúa að mannauðnum og heimilisfólki og ég ætla að gera það,“ segir Inga Dóra að endingu.