Seinni part síðasta síðasta föstudags var tilkynnt um ofsaakstur ökumanns á suðurleið yfir Holtavörðuheiði. Lögreglan úr Borgarnesi fór til móts við bílinn og mætti honum við Baulu þar sem hún gaf honum merki um að stoppa með forgangs- og blikkljósum. Ökumaðurinn stöðvaði ekki bifreiðina heldur jók hraðann og hvarf sjónum. Lögregla kom síðan að bæ í nágrenninu þar sem ábúandi tók á móti henni nokkuð skelkaður og benti þeim á bílinn þar sem honum hafði verið lagt við skemmu. Þar sást jafnframt í iljarnar á tveimur krökkum sem hurfu sjónum inn í skóg og missti lögreglan af þeim. Hafin var leit að þeim við Borgir og norður af Munaðarnesi en án árangurs. Bíllinn var færður með kranabíl á lögreglustöðina í Borgarnesi og skömmu síðar komu ungmennin þangað til að vitja bílsins. Kom þá í ljós að ökumaður var einungis 14 ára gamall og farþeginn á svipuðum aldri. Ökumaðurinn kvaðst að eigin sögn hafa fengið bílinn að láni og var bíllinn ekki tilkynntur stolinn. Ökumaðurinn á meðal annars von á kæru fyrir að aka án réttinda og að virða ekki fyrirmæli lögreglu. Barnaverndarnefnd var tilkynnt um málið og haft var samband við foreldra.