Þriggja daga sjávarútvegssýning var sett í gær í Laugardalshöll

Í gær var þriggja daga sjávarútvegssýning opnuð í Laugardalshöll í Reykjavík. Sýningin var í tveimur sölum hallarinnar og allflest sýningarrými nýtt. Þar kynna fjölmörg fyrirtæki á sviði útgerðar og fiskvinnslu starfsemi sína auk þjónustufyrirtækja af ýmsu tagi. Meðal nýjunga má sjá sjálfvirka fiskvinnsluvél frá Akureyri, nýja vog sem stjórnað er snertilaust, þokuhreinsunartæki, tæki til flutninga, róbóta sem skenkja í glös gesta og áfram mætti telja.

Við opnun sýningarinnar í gær voru veittar viðurkenningar á sviði sjávarútvegs. Vigfús Vigfússon, sem gerir út bátinn Dögg SU-18, var útnefndur trillukarl ársins af Landssambandi smábátaeigenda. Þá hlutu nýsköpunarfyrirtækin Sidewind og Alvar viðurkenningu frá Íslenska sjávarklasanum og loks hlaut Síldarvinnslan viðurkenningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fá fyrirtæki með beina tengingu við Vesturland voru með bás á sýningunni. Þó voru Faxaflóahafnir á svæðinu og Grundarfjarðarhöfn var þar með stóran og ríkulega myndskreyttan bás í sameiningu við helstu fyrirtækin sem tengjast útvegi og þjónustu í byggðarlaginu. Þeirra á meðal voru Snæís, Snæfrost, Djúpiklettur, Fiskmarkaður Íslands, G.Run, Ragnar og Ásgeir og Vélsmiðja Grundarfjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira