Haustþing Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hófst í Stykkishólmi í gær og lýkur í dag. Guðveig Eyglóardóttir, formaður stjórnar SSV, setti þingið í gær sem hófst svo á kynningu Páls S. Brynjarssonar framkvæmdastjóra á starfsemi samtakanna. Hrefna Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands hf, kynnti á þinginu starfsemi fyrirtækisins, sem er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi. Fyrirtækið rekur urðunarstað í Fíflholtum á Mýrum. Fíflholtajörðin er 1.571 hektari en 61 hektari er skilgreindur sem urðunarsvæði. Almenningur eykur flokkun Urðunarstöðin í Fíflholtum hefur leyfi til að urða allt að 15 þúsund tonn af úrgangi á ári en á síðasta ári voru 14,9 tonn urðuð á svæðinu. Þess má geta að Sorpurðun Vesturlands urðar á einu ári það magn sem Sorpa urðar á einum mánuði, enda telst urðunarstaðurinn lítill. Hrefna segir að undanfarin ár hafi verið urðað sorp umfram það sem starfsleyfið leyfir, en starfsemi síðasta árs bendir til þess að almenningur sé að flokka betur og minna magn úrgangs sé því að koma inn á urðunarstaðinn. Plastið helsta vandamálið ,,Við þurfum mörgu að breyta varðandi úrgangsmál og huga að framtíðinni. Það kemur ennþá mikið plast inn á urðunarstaðinn, sem er ekki nógu gott því það má flokka og koma til endurvinnslu. Plastið er svo það sem fýkur hvað helst til þegar hvessir, en við reynum að passa að það gerist ekki. Við erum með fokvarnargirðingar sem eiga að varna því að plastið fjúki út af svæðinu. Svo tökum við t.d. ekki við úrgangi þegar vindur er orðinn 18 m/s en við erum nýbúin að lækka það viðmið.“ Flóknast að farga sláturúrgangi Hrefna segir að úrgangsmál séu krefjandi málaflokkur þar sem regluverkið setji sífellt fleiri skorður. Því eru gríðarlega margir boltar á lofti. „Verið er að skoða gervigreind í flokkun, hátækni í brennslu og fleira. Sláturúrgangur er einn flóknasti úrgangurinn í augnablikinu en við munum hætta að taka við honum um næstu áramót. Áhættuvefir, svo sem heili, milta og mæna, fara til sér brennslu á Reykjanesi. Þar eiga þeir samt erfitt með að taka við dýraskrokkum og þurfa helst að fá þá hakkaða til að færa efnið í brennsluofna. Einnig má úrgangurinn ekki vera tekinn að úldna þegar hann fer í brennslu. Því þyrfti þá einnig að frysta hann, en úrgangurinn má koma frosinn eða hreinn á Reykjanesið. Eina sláturhúsið á Vesturlandi er í Brákarey í Borgarnesi en það kemur ekki mikill úrgangur þaðan. Það vantar hins vegar meiri brennslugetu í landið og æskilegast að það verði sjálfbært með úrgang. Endurvinnslustöðvum að loka Ákveðinn úrgangur hefur verið fluttur til annarra landa til brennslu, að sögn Hrefnu, en í Covid sýndi það sig t.d. að landsmenn þurfa að fara að skoða þau mál betur. „Þjónustuaðilar reka sig á við útflutning endurvinnsluefna að endurvinnslustöðvar eru margar hverjar að loka í Evrópu vegna hás orkukostnaðar. Sum lönd eru þess vegna að hætta að endurvinna en vonandi er það tímabundið,“ sagði Hrefna. Hún segir einnig að ríkið þurfi að koma meira að förgun dýrahræja og sláturúrgangs um allt land, en EES samningur kveður á um að Ísland bæti sig í þessum efnum. Almennt þurfi að minnka magn til urðunar og þar með breyta neyslu- og framleiðsluháttum í landinu. Hér fyrir neðan má sjá urðunarsvæði Fíflholta https://www.youtube.com/watch?v=aDIxuePlvus