Fyrsti leikur Snæfells á þessu keppnistímabili í 1. deild kvenna í körfuknattleik verður í kvöld á móti KR í Stykkishólmi og hefst leikurinn klukkan 19.15. Í gærkveldi tóku leikmenn meistaraflokka Snæfells rölt um hverfi bæjarins og seldu ársmiða en hann er gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir félagið. Árleg spá formanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni og spá fjölmiðla var opinberuð í síðustu viku og þar var deildarmeisturum Ármanns á síðasta tímabili spáð fyrsta sæti. KR og Stjarnan voru jöfn í öðru og þriðja sætinu og einnig Þór Akureyri og Aþena/Leiknir/UMFK í fjórða og fimmta sætinu. Hamar/Þór var spáð sjötta sætinu og Snæfelli því sjöunda með einu stigi meira en Tindastóll sem er spáð falli eins og Breiðabliki B. Miðað við þessa spá má búast við erfiðum leik fyrir Snæfellskonur í kvöld og því um að gera fyrir alla áhugamenn að mæta og hvetja Snæfell til sigurs gegn KR.