Fyrir hádegi í dag var búið að rétta prammann af, en eftir er að koma gröfunni á land. Ljósm. af.
2. október 2021
Nú hefur stórvirkur krani verið fenginn til að lyfta dýpkunarprammanum sem hálfsökk í Rifshöfn á mánudaginn. Grafan á prammanum er um 70 tonn að þyngd en auk húss sem hýsir rafstöð og prammans sjálfs er þyngdin um eða yfir 80 tonn. Pramminn var smíðaður 1995 og er af gerðinni Confloat. Ber hann nafnið Svavar. Hagtak ehf. á dýpkunarprammann en Köfunarþjónustan tók að sér að koma prammanum á land. Lítils háttar olíumengun hefur orðið í höfninni en flotgirðingu til að grípa olíuna var strax á mánudaginn komið í kringum tækin. Pramminn fór á mánudaginn niður á botn hafnarinnar og flaut sjór að mestu yfir gröfuna við bryggjuna þegar hásjávað var.