Fjölskyldan á góðri stundu. Ljósm. úr einkasafni

„Við elskum leikinn og elskum íþróttir“

Blaðamaður kíkti í kvöldkaffi til Hermanns Geirs og Freydísar sem fluttu frá Grundarfirði á Akranes fyrir síðustu áramót

Hjónin Hermann Geir Þórsson og Freydís Bjarnadóttir eru nýflutt frá Grundarfirði á Akranes. Eftir að hafa búið í Grundarfirði síðustu 13 ár hleyptu þau heimdraganum og fluttu með fjölskylduna á Skagann um síðustu áramót. Þau eiga þrjá drengi, elstur er Breki Þór sem er nítján ára, Gabríel Ómar er átján ára og yngstur er Heikir Darri þrettán ára. Foreldrar Hermanns fluttust í Grundarfjörð frá Reykjavík árið 1975 og foreldrar Freydísar á Hellissand frá Drangsnesi á Ströndum árið 1995. Hermann er fæddur og uppalinn á Grundarfirði en Freydís kom á Hellissand þegar hún var tólf ára gömul og bjó þar í fjögur ár þar til hún flutti til Reykjavíkur rétt fyrir aldamótin. Blaðamaður Skessuhorns kíkti í kvöldkaffi til þeirra hjóna fyrir skömmu og spjallaði við þau um heima og geima. Hermann og Freydís eru mjög tengd íþróttum, stunduðu bæði knattspyrnu á yngri árum og hafa alltaf verið í kringum íþróttir, hvaða nöfnum sem þær nefnast.

Draumur að alast upp úti á landi
Hvernig var að alast upp úti á landi? Hermann segir að það hafi verið alger draumur að alast upp í Grundó eins og hann kallar Grundarfjörð. „Þetta var mikið frelsi og svona að mínu mati lítið verndað bæjarfélag. Allir einhvern veginn með augun á öllum og kjaftað um alla eins og er oft í smábæjum. Ef þú gerðir eitthvað af þér þá vissi allur bærinn það sem gat verið pirrandi þegar maður vildi vera að laumupúkast sem unglingur,“ segir hann og hlær. Hermann byrjaði ungur að vinna en aðeins átta ára var hann að skera úr netum hjá afa sínum fyrir einhverja hundrað kalla. Tólf ára fékk hann sína fyrstu launuðu vinnu í Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar í tvö sumur og var síðan í bæjarvinnunni eftir það. „Ég man þegar ég var í 10. bekk í grunnskóla að þá skall á verkfall í skólanum og þá fóru allir krakkarnir í mínum árgangi að vinna í frystihúsunum þennan mánuð. Ég fór síðan að vinna í Sæfangi sem er G. Run í dag allt sumarið og fór síðan á sjó um haustið.“ Hermann hefur verið viðloðandi sjómennskuna í um 15 ár en árið 2003 fluttu þau hjónin til Grundarfjarðar og var Hermann í smíðavinnu til ársins 2009. Síðan lá leiðin á sjóinn aftur og var hann á sjó í Grundarfirði í sex ár til ársins 2014 og réði sig síðan á frystitogara í Reykjavík þar sem hann var í fjögur ár. Hjónin hafa alltaf verið íþróttalega sinnuð en Hermann hefur nánast prófað allar íþróttir sem í boði eru. Hann keppti á Íslandsmótinu í badminton, var í landsliðsúrtökum í knattspyrnu, körfubolta og blaki og hefur keppt í pílu.

Fékk víðáttubrjálæði
Freydís átti svipaða æsku, bjó lengi á Drangsnesi á yngri árum þar sem bjuggu um 100 manns. „Ég man þegar ég flutti á Hellissand að þá fékk maður víðáttubrjálæði. Það var rosa bylting, risastórt dæmi og ég fór í allt sem ég komst í. Fór í tónlistarskólann þar sem ég prófaði öll hljóðfæri held ég og prófaði einnig allar íþróttir eins og þær lögðu sig, það var alveg geggjað. Það var hægt að búa til heilt fótboltalið á staðnum og meira að segja voru allir jafn gamlir, það fannst mér mjög merkilegt. Maður tók nánast allt úr því sem maður gat. Maður var alla daga í íþróttahúsinu og prófaði allar íþróttir.“ Freydís byrjaði einnig ung að vinna og vann í fiski eins og flestir ef ekki allir af hennar kynslóð sem ólust upp í sjávarþorpi. „Ég var enn pínulítil þegar ég var að skera grásleppu upp úr kari á bryggjunni á Drangsnesi en ég var lítil eftir aldri svo líklega hef ég verið orðin tíu ára. Fór svo áfram þessa klassísku leið í gegnum flest frystihúsin í Rifi. Þegar við fluttum svo í bæinn átti mamma sjoppu og þar fékk ég að vinna eins mikið og ég gat og vildi (og oft aðeins meira en ég vildi!). Þar vann ég þangað til við Hemmi fluttum til Grundarfjarðar. Ég útskrifast síðan ekki úr framhaldsskóla fyrr en Breki var eins árs og ég var gengin sex mánuði með Gabríel. Ég tók þá allar lausar vinnur sem hentuðu á þeim tíma og bjó mér líka til verkefni, til dæmis skipulögðum við og héldum fótboltaskóla fyrir krakka í Grundarfirði í tvö frekar en þrjú sumur á meðan strákarnir voru litlir. Haustið 2005 fór ég í viðskiptafræði í HÍ, lýk námi 2009 og útskrifast aftur ólétt, þá af Heiki Darra. Þegar fæðingarorlofinu var að ljúka var auglýst staða stærðfræðikennara við FSN og ég sótti um enda alltaf haft mjög gaman af stærðfræði. Ég fékk ekki starfið enda vantaði mig kennsluréttindin. Þá um haustið fór ég strax í kennsluréttindin, sótti aftur um kennslustarfið árið á eftir, fékk starfið og var þar í rúm tíu ár þangað til við fluttum á Skagann.“

Vissu af hvort öðru
Hermann og Freydís kynntust vorið 2002 í Reykjavík í sameiginlegu vinapartýi og eignuðust frumburðinn Breka Þór í mars árið eftir. Freydís segir að hún hafi aðeins vitað af Hermanni í gegnum systur hans sem bjó á Hellissandi og vissi að hún ætti bróður en vissi ekkert meir. Hermann vissi hver systir Freydísar var því hún var einu ári eldri en hann. Þrjú ár eru á milli Hermanns og Freydísar og Freydís segir að hún hafi verið frekar óþroskuð eftir aldri. Hermann hafi hins vegar verið frekar í hina áttina og þau hittust því aldrei fyrr en í partýinu afdrifaríka.

Hermann fór í Fjölbrautaskólann á Akranesi árið 1998 þar sem hann lærði til smíði og fór síðan til Reykjavíkur árið 2001, spilaði með Skagamönnum árið 2002 í Símadeildinni í fótbolta þar sem hann lék sjö leiki og skoraði eitt mark. Hermann á einnig einn Evrópuleik að baki með ÍA en það var leikur á móti Zeljeznicar frá Sarajevo í Júgóslavíu og kom hann inn á undir lok leiksins.

Ejub gjörbreytti fótboltamenningunni
Hermann tók síðan þátt í ævintýrinu í Ólafsvík árin 2003-2005 þar sem Víkingur fór upp í næst efstu deild á þremur árum undir stjórn Ejub Purisevic. Hermann segir að það hafi verið geggjaður tími og einn hans skemmtilegasti tími fótboltalega séð. „Árið 2003 var fyrsta árið hans Ejubs og hann á allan heiður skilinn og gjörbreytti fótboltamenningunni á Snæfellsnesi, ekki bara í Ólafsvík heldur á öllu nesinu.“ Leikmannahópurinn á þessu tímabili var byggður upp af strákum frá Grundarfirði, Stykkishólmi og Hellissandi nánast til jafns við strákana frá Ólafsvík.

Hermann lék síðan með HK frá árunum 2006-2008, með Víkingi Ólafsvík 2009 og lauk ferlinum með Grundarfirði árin 2011-2014. Hermann og Ragnar Smári Guðmundsson tóku síðan við liði Víkings Ó. veturinn 2020 til að þjálfa það fyrir Íslandsmótið í Futsal og fengu einnig Brynjar Kristmundsson inn í teymið. Síðan fóru þeir á mótið og urðu Íslandsmeistarar í Futsal. Voru þeir einu Íslandsmeistararnir þetta ár sem fengu bikarinn afhentan og voru krýndir sökum þess að Covid-19 var í gangi. Það er það síðasta sem Hermann afrekaði á fótboltaferlinum og þess má geta að hann varð markahæstur í úrslitakeppninni í Futsal.

Freydís lék með Stjörnunni á árunum 1999-2002 en átti síðan tvo eldri drengina á næstu tveimur árum og tók sér hlé frá knattspyrnunni. Síðar lék hún með HK/Víkingi árin 2007 og 2008 þar sem þær léku í efstu deild seinna árið eftir að hafa komist upp árið áður. Ferlinum lauk hún síðan með Víkingi Ólafsvík á árunum 2013-2018, þá orðin 36 ára gömul.

Íþróttir númer eitt, tvö og þrjú
Hvað með önnur áhugamál? „Íþróttir eru okkar aðaláhugamál,“ segir Freydís. „Við erum bæði á fullu í golfinu og svo erum við að fylgjast með strákunum okkar í boltanum. Við elskum leikinn og elskum íþróttir. Við förum á snjóbretti og á skíði. Leikum okkur mjög mikið. Förum á öldungamót ennþá saman í blaki því það er ótrúlega gaman. Hermann fer meira í golfferðir erlendis og þá í svona strákaferðir. Svo erum við í nokkrum vinahópum þar sem samgangurinn hefur verið að aukast síðustu ár. Til dæmis skipuleggur einn vinahópurinn svona hálfgerða ólympíuleika þar sem keppt er í alls konar íþróttum, sturlað gaman. Svo er Hermann duglegur að æfa sig í pílu og fór á Íslandsmeistaramótið í maí í fyrra. Hann hefur svo verið að spila aðeins með B-liði Pílufélags Akraness sem tryggði sér sæti í efstu deild á liðnum vetri.

Alltaf nóg að gera
Þið eruð búin að vera saman í yfir tuttugu ár. Hvernig hefur gengið að viðhalda neistanum í hjónabandinu? Freydís segir að það hafi verið frekar auðvelt því Hermann hafi alltaf verið mikið á sjó, mikið um fjarveru og þá sérstaklega í seinni tíð. Oft var hann 30-40 daga í einu og því var Freydís sjómannsfrú og oft með börnin ein. Áður fyrr þegar hann var í smíðinni var hann oft einnig mikið fjarverandi því það var oft nóg að gera. Til að mynda var hann að vinna við að byggja íþróttahúsið og sundlaugina á Hólmavík sem tók rúmt ár í smíðum. Freydís segir að karlarnir komist oftar léttar undan hlutum tengdum heimilinu því ef þær konurnar ætli að fara eitthvað þurfi þær alltaf að „doubletékka“ að hlutirnir séu í lagi á meðan karlarnir viti að þær séu með þetta. „Ábyrgðin er oftar á höndum okkar mæðranna og það er fínt fríkort að hafa. En auðvitað þegar Hermann var úti á sjó þá var augljóst að ég þurfti að sjá um alla hluti á heimilinu og það var allt í góðu. En ég get sagt það að núna er þetta svona 80 til 20 prósenta skipting Hermanni í vil og það er bara gott mál enda kominn tími til. Sú skipting viðheldur neistanum,“ segir hún og brosir kankvíslega. „Það er kannski ekki til eitt svar við þessari spurningu en við erum ótrúlega „líbó“ í lífinu og við höfum kannski ekki þurft að viðhalda neistanum, hann er bara þarna og hefur blessunarlega alltaf verið þarna,“ segir Hermann.

Hermann og Freydís giftu sig 3. september árið 2011 og áttu því ellefu ára brúðkaupsafmæli þarsíðasta laugardag. Sama dag fagnaði faðir Hermanns, Þór Geirsson, sjötugsafmæli sínu. Í tilefni dagsins fóru þau á hjóna- og paramót í golfi í Brautarholti. Giftingardagurinn gekk ekki átakalaust fyrir sig því skömmu fyrir brúðkaupið var Hermann að spila knattspyrnuleik á móti Magna frá Grenivík og varð fyrir því að stigið var á höndina á honum. Var hann því í gifsi á giftingardaginn og komst með naumindum í skyrtuna og jakkann en þetta blessaðist þó allt að lokum.

Algjör skyndiákvörðun
En hvað kom til að þið tókuð þá ákvörðun að flytja á Akranes? Freydís segir að henni hafi alltaf þótt leiðinlegt að skilja strákana þeirra eftir og var ekki alveg tilbúin í að þeir væru svona langt í burtu frá þeim. „Tveir elstu strákarnir okkar voru fluttir á Akranes og til Reykjavíkur í nám og við þrjú eftir í Grundarfirði. Þetta var svona skyndiákvörðun sem kom upp í október þegar við vorum í kaffi hjá vinum á Akranesi og vorum svo á leiðinni aftur vestur. Þá segja þau við okkur: „Af hverju flytjið þið ekki bara á Skagann?“ Síðan horfðum við bara á hvort annað og ég sagði: „Ég er til“ og Hermann sagði. „Þú veist að ég er til.“ Við skoðuðum síðan íbúð á Skaganum þennan dag áður en við fórum vestur en svo var aðalmálið að geta selt húsið okkar í Grundarfirði. Við settum húsið á sölu og fljótlega kom tilboð í það sem var mjög óvænt því við áttum ekki von á tilboði svona fljótt. Húsið seldist sex dögum eftir að það fór á sölu og við varla trúðum þessu. Það er ekki mikil hreyfing á húsum í Grundó og tekur oft langan tíma að selja. Við keyptum síðan hér á Akranesi, fengum afhent 1. desember og vorum flutt inn um miðjan mánuðinn.“ Freydís vinnur hjá OJK-ÍSAM í Reykjavík þar sem hún sér um FootJoy fatamerkið og Hermann vinnur hjá SF smiðum á Akranesi.

Minningarnar eru þarna
Hvernig var ykkur tekið þegar þið komuð á Akranes og hvernig líður ykkur hér? Hermann segir og talar þá fyrir sjálfan sig að hann hafi þekkt marga fyrir því hann var á Akranesi í þrjú ár í skóla. „Maður kynntist mörgum úr mínum árgangi úr fótboltanum, fullt af flottum drengjum þar. Síðan var ég með nokkrum í námi sem eru að vinna núna með mér í dag hjá SF smiðum. Þannig að þetta hefur verið lítið mál fyrir mig að flytja hingað og mér líður vel hérna.“ Freydís er að vinna í Reykjavík og þekkir því minna til á Skaganum og þekkir aðallega foreldrana sem eru að koma á fótboltaleikina hjá strákunum þeirra. Svo hefur hún kynnst fullt af góðu fólki sem hafði hugsað vel um Breka á meðan hann bjó á heimavistinni. „Annars líður okkur fjölskyldunni mjög vel hérna á Skaganum og erum mjög ánægð. Okkur leið einnig mjög vel í Grundarfirði og það var mikill söknuður að fara þaðan. Við höfum búið þar nánast alla tíð og eigum ótrúlega mikið af góðum vinum þar. Minningarnar eru þarna, þegar ég er að tala um heima þá er ég að tala um Grundó og þannig verður það alltaf líklegast,“ segir Hermann.

Freydís er með aukabúgrein en það er netverslun með íþróttaföt sem heita Born Primitive og segir að það sé meira en nóg að gera í því. Hún segir að varan sé góð og hún sé með dygga fastakúnna en um er að ræða crossfit fatnað; hettupeysur, jogging buxur, sokka og jafnvel vinnuboli svo úrvalið er fjölbreytt.

Lék í vinsælli leiksýningu
Nú líður að lokum þessa spjalls, en blaðamaður sér sig knúinn að spyrja Freydísi um leiklistina sem kom inn í líf hennar fyrir tæpum átta árum. Þá hafði Kári Viðarsson samband við hana og sagðist vera að gera sýningu í Frystihúsinu á Rifi um sjóslys. „Fósturpabbi minn lenti í sjóslysi á Hellissandi og dó ásamt öðrum á sjó. Kári er tveimur árum yngri en ég, er æskuvinur og mundi eftir þessu slysi og vildi gera leikrit um það. Fyrst vildi hann fá mig til að segja söguna, ég gerði það og síðan vatt það bara upp á sig. Honum fannst ég segja söguna vel og vildi að ég tæki þátt í verkefninu.“ Sýningin var samstarfsverkefni þeirra, hét Mar og var sýnd yfir fjörutíu sinnum í Frystiklefanum í Rifi. Sýningar hófust rétt fyrir jólin og náðu fram á vorið. Varð þetta mjög vinsæl sýning og fékk geysigóða dóma. Kári fékk Grímu tilnefningu árið 2015 í flokknum Sproti ársins ásamt Hallgrími Helgasyni fyrir Mar en barnaleikritið Lífið – stórskemmtilegt drullumall hlaut verðlaunin það árið.

En að lokum, hvar sjáið þið ykkur eftir tíu ár? Hermann er snöggur til svars: „Ég segi og ætla að standa við það. Ég væri til í að vera búinn að koma öllum drengjunum vel fyrir og við kannski af og til í einhverri siglingu eða í skíðaferð erlendis. Þá verðum við vonandi búin að kaupa okkur hús við einhvern golfvöll á Spáni og síðan myndi ég vilja líta út eins og Dean Martin þjálfari lítur út í dag þegar ég verð fimmtugur. Það er ómennskt hvað hann er í góðu formi og lætur okkur hina líta illa út. En það er önnur saga.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira