Fyrirhuguð hótelbygging á Skerðingsstöðum. Teikning: Zeppelin arkitektar.

Vill forðast umhverfisslys við Lárvaðal

Eigendur jarðarinnar Mýrarhúsa í Grundarfirði hafa gert margháttaðar athugasemdir við deiliskipulag vegna hótels sem til stendur að reisa í landi Skerðingsstaða. Þar er gert ráð fyrir byggingu 100 herbergja hótels og fimm smáhýsa. Hótelið verður með útsýni að vesturhlið Kirkjufells, sem nýtur sífellt meiri vinsælda og er svæðið orðið með fjölfarnari ferðamannastöðum á landinu. Gera landeigendur Mýrarhúsa m.a. athugasemdir við að bygging hótels á nærliggjandi jörð og smáhýsa við það muni leiða til þess að fráveita skaði lífríki Lárvaðals, að mengun verði frá bílastæðum auk hljóð-, ljós- og sjónmengunar. Í niðurlagi athugasemda, sem Gaukur Garðarsson einn eigandi Mýrarhúsa sendir Grundarfjarðarbæ, segir:

„Það er dapurlegt að sjá hvernig Grundarfjarðarbær hefur staðið að þessari vinnu við deiliskipulagstillöguna og aðdraganda hennar. Hvernig afgreiðsla á athugasemdum og spurningum sem sendar voru vegna kynningu á verkefnislýsingu fyrir gerð deiliskipulags á reit í landi Skerðingsstaða. Mörgum spurningum var ekki svarað, þeim vísað beint á framkvæmdaraðila sem annað hvort hunsaði þær eða svaraði þeim illa. Ég persónulega vil taka það fram að frá því að ég flutti burt úr sveitarfélaginu, hef ég komið reglulega til Grundarfjarðar til að njóta bæði náttúrunnar og gæðastunda með vinum og ættingjum. Ég er stoltur af því hversu snyrtilegur og hreinn bærinn er og það er umtalað bæði í mínum vinahóp og á fólki sem ég hitti hvað Grundarfjarðarbær er snyrtilegur og fallegur bær og að greinilegt sé að fólk og ráðamenn sveitarfélagsins leggi sig fram að þar sé allt í lagi í umhverfismálum. Nú vil ég trúa því að ráðamenn og konur vilji halda áfram á þeirri braut en ekki taka séns á umhverfisslysi og gera bara eitthvað og hugsa að þetta hljóti að reddast. Við jarðeigendur Mýrarhúsa höfum virkilegar áhyggjur af þessari framkvæmd sem fyrirhuguð er á landi Skerðingsstaða og að hún verði með þeim hætti að hún skaði umhverfi og náttúru. Það er því okkar trú að nýkjörinn bæjarstjórn sé ekki að fara að færa sig frá því að láta umhverfið og náttúru vera í forgrunni og ætla að taka áhættu í þessu máli.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir