Hamarshúsið var byggt árið 1926.

Boða stofnfund Hollvinasamtaka Hamarshússins í Borgarnesi

Ákveðið hefur verið að efna til stofnfundar Hollvinasamtaka Hamarshússins í Borgarnesi. Verður fundurinn haldinn í Hamarshúsinu við golfvöllinn fimmtudaginn 22. september kl. 20.30. Þeir Guðmundur Eyþórsson og Ingimundur Ingimundarson eru skrifaðir fyrir stofnfundarboði, en þess má geta að Guðmundur átti hluta æsku sinnar í húsinu. Á fundinum verður m.a. borin upp tillaga að lögum félagsins og kosið í stjórn. Á stofnfundinn eru allir hvattir til að mæta sem vilja láta þetta áberandi kennileiti við hringveginn sig varða.

Eitt helsta tákn Hamarsvallar er klúbbhúsið, gamli Hamarsbærinn. Í afmælisblaði golfklúbbsins kemur fram að húsið var reist árið 1926 en það er steinsteyptur og tvílyftur burstabær. Til hússins sést víða að, ekki síst frá þjóðveginum, enda er það á Hamrinum svokallaða, sem völlurinn dregur nafn sitt af. Áður höfðu klúbbfélagar haft hug á að byggja sitt eigið klúbbhús, en frá því var horfið eftir að Borgarneshreppur, eigandi hússins, ákvað að færa klúbbnum það til afnota. Hreppurinn myndi að auki kosta allt efni við endurbætur gegn því að félagar í klúbbnum legðu til vinnu. Þeir einhentu sér í að lagfæra húsið og koma þar upp myndarlegri félagsaðstöðu. Framkvæmdir stóðu yfir fram á vor 1979 og voru ófáar vinnustundir lagðar í verkið. Til marks um það hversu slæmt ástand var á Hamarsbænum má nefna að eitt herbergi þess var yfirfullt af hænsnaskít þegar endurbætur hófust og eyddu félagar mörgum klukkustundum í að moka skítnum út. Klúbbhúsið var loks tekið í notkun sumarið 1979.

Síðan þá hafa margs konar endurbætur og breytingar verið gerðar á húsinu, sem félagarnir í golfklúbbnum hafa tekið þátt í með einum eða öðrum hætti. Hæst báru framkvæmdir á efri hæð hússins árið 1987 þegar þar var útbúin gistiaðstaða. Klúbburinn hefur m.a. haft golfskálann til útleigu á sumrin og hafa fjölmargir staðarhaldarar rekið þar gistiheimili og veitingasölu.

Í viðtali í Skessuhorni á síðasta ári sagði Guðmundur Eyþórsson frá því að hann hafi alist upp í gamla húsinu á Hamri, sem nú er klúbbhús golfklúbbsins, og búið þar í 14 ár frá árinu 1960 með foreldrum sínum og systkinum. „Golfararnir voru byrjaðir hérna upp úr 1970 og þá á litlu svæði hérna úti á túni. En það er ekki fyrr en eftir að við förum héðan sem golfklúbburinn fær húsið árið 1978, en það hafði þá verið í niðurníðslu. Þetta er sko ekkert í fyrsta skiptið sem ég er að leika mér hérna á hólnum,“ sagði Guðmundur sem nú stundar pútt af krafti. „Það var mjög gott að vera hérna sem krakki. Ég var í skóla í Borgarnesi og stundaði alla mína skólagöngu þar og gengum við iðulega í skólann hvernig sem viðraði.“

Í viðtalinu á síðasta ári sagðist Guðmundur hafa miklar áhyggjur af sínu æskuheimili og kvaðst vonast til að eitthvað verði gert í málinu. „Mér finnst að það megi koma fram að það ætti fljótlega að fara að huga að því að bjarga þessu húsi því það er að láta á sjá bæði að innan sem utan enda orðið nær hundrað ára,“ sagði Guðmundur. Orðum fylgja oft efndir og nú hefur Guðmundur í félagi við Ingimund og fleiri ákveðið að láta verkin tala.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira