{
"name": "core/freeform",
"attributes": [],
"saveContent": "<em>Þetta viðtal birtist fyrst í 30. tölublaði Skessuhorns, 27. júlí 2022 og birtist nú á vef Skessuhorns í heild.</em>\r\n\r\nEyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir búa ásamt dætrum sínum tveim, Eydísi Helgu og Ernu Diljá, að Ásgarði í Dalabyggð, áður í Hvammssveit. Eyjólfur er sjötti ættliður sömu fjölskyldu sem býr í Ásgarði en ættin hans hefur búið þar síðan 1810. Lóa er frá Erpsstöðum í Miðdölum. Þau búa með 400 kindur, eru með 20 hross sem þau nota í smalamennsku á haustin og átta hænur sem gefa egg til heimilisins. Nýverið hófu þau garðrækt og skógrækt en þau vilja ekki skilgreina sig einungis sem sauðfjárbændur, frekar vera opin fyrir nýjum möguleikum landbúnaðar þar sem afkoma í sauðfjárrækt hefur verið slök undanfarin ár.\r\n\r\nEyjólfur er búfræðingur að mennt og með BS próf í búvísindum frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri ásamt meistaraprófi í erfða- og kynbótafræði búfjár frá háskólanum í Ási í Noregi. Lóa er ferðamálafræðingur að mennt með kennsluréttindi og starfar sem kennari við Auðarskóla í Búðardal. Blaðamaður kom í heimsókn að Ásgarði í rjómablíðu í síðustu viku og ræddi við hjúin um þróun landbúnaðar, opið hugarfar og nýja möguleika í íslenskum landbúnaði.\r\n\r\n<strong>Sjötti ættliðurinn í Ásgarði</strong>\r\n\r\nEyjólfur og Lóa tóku við búinu í Ásgarði af foreldrum Eyjólfs sem búa í eigin húsnæði á jörðinni. ,,Við tökum við búinu hérna um áramótin 2016-2017, ég hef þó verið viðloðandi búskapinn hér mun lengur. Ásgarður er bara svona hefðbundið sauðfjárbú, hér hafa verið um 400 vetrarfóðraðar kindur nokkuð lengi og sama ættin búið hér síðan 1810, að ég best veit. Þetta var lengi vel þríbýli en það var langafi minn Bjarni Jensson sem kaupir og sameinar alla partana í eina jörð meðan hann bjó hér 1890-1942. Síðasta hlutann kaupir hann af biskupsskrifsstofu árið 1915 en kirkja var hér í Ásgarði til 1882. Hér var lengi vel nokkurskonar miðstöð sveitarinnar. Þetta er mjög stórt hús sem við búum í, en húsið er byggt yfir ýmsa starfsemi 1956 en hér var Sparisjóður Dalasýslu, bensínafgreiðsla, símstöð og rútan stoppaði líka alltaf hér. Þannig það var svona margt umleikis. Ásgarður var a.m.k. þekktur staður á sínum tíma en er líklega eitthvað minna þekktur í dag ,“ segir Eyjólfur.\r\n\r\n<strong>Rækta beitarskóg fyrir sauðfé</strong>\r\n\r\nEyjólfur og Lóa hófu að planta lerki, stafafuru og sitkagreni á síðasta ári en þau stefna á að útbúa beitarskóg fyrir sauðfé. ,,Við byrjuðum í fyrra að planta trjám og erum núna búin að planta um 12.000 plöntum. Hugmyndin er að gera beitarskóg en við verðum að friða svæðið í nokkur ár á meðan plönturnar eru að komast upp en þetta svæði getur nýst sem slíkt. Þarna verður svo vonandi gott beitiland og skjól fyrir sauðfé. Ég sé fyrir mér að geta nýtt beitarskóginn til beitar eftir 10 ár en það er eitthvað lengri tími í að fullvaxta tré til viðarframleiðslu verði tilbúin og það verður líklega ekki í minni tíð. Jörðin verður engu að síður alltaf verðmætari með trjám heldur en án trjáa. Maður er farin að heyra með jarðir erlendis að bankarnir krefjast þess kannski að þú kaupir part af skógi, nýtir svo timbrið og þannig geturðu fjármagnað hluta af jörðinni. Þannig þetta er bara partur af framtíðinni,“ segir Eyjólfur en hann er sjálfur mikið menntaður á sviði landbúnaðar. ,,Ég er búfræðingur frá Hvanneyri og með BS próf í búvísindum. Síðan var ég úti í Noregi og er þaðan með meistaragráðu í erfða- og kynbótafræði búfjár . Ég starfa svo hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) í 50% starfi sem sauðfjárræktarráðunautur. Svo er ég búin að vera að taka ýmis námskeið og kúrsa og kláraði í vor diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.“ Eyjólfur er einnig oddviti sveitastjórnar í Dalabyggð og situr í stjórn SSV (Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi).\r\n\r\n<strong>Lóa með hugmyndabankann og sannfæringarkraftinn</strong>\r\n\r\nLóa kemur inn og blaðamaður spyr hvort Eyjólfur hafi haft hugmyndina að þessum nýju ræktunarævintýrum en þá kom glott á parið og Lóa segir: ,,Ég er miklu frjórri sko. Það eru þó nokkur ár síðan ég pikkaði í hann fyrst með þessa hugmynd um garðyrkjuna en svona hugmyndir þurfa alltaf smá tíma til að malla í hausnum á honum.“ Eyjólfur bætir svo við ,,já, Lóa á fullt af hugmyndum en það tekur langan tíma fyrir mig að melta þær,“ „já og svo er ég með góðan sannfæringarkraft,“ segir Lóa og þau hlæja.\r\n\r\n<strong>Möguleiki á sölu kolefniskvóta</strong>\r\n\r\nKolefnisjöfnun hefur verið til umræðu í samfélaginu síðastliðin misseri en dæmi eru um stórfyrirtæki sem kaupa jarðir og gróðursetja tré til að kolefnisjafna sinn rekstur. Aðspurður segist Eyjólfur ekki hafa miklar áhyggjur af þessari þróun en það sé óþarft fyrir bændur að vera hrædda við tré. ,,Þetta er bara hlutur sem á eftir að vera stanslaust til umræðu núna en við erum ekki endilega að horfa á kolefnisjöfnun hér í Ásgarði. Við horfum meira á þetta með tilliti til beitarskógræktar og síðan kannski að einhverju leiti skógrækt til timburframleiðslu. Ef við getum svo selt einhverja kolefniskvóta og fengið tekjur út á það er það bara bónus. En það er mín skoðun að það sé svolítið gullgrafaræði í tengslum við kolefnisjöfnunina núna og sjálfsagt er hellings peningur í þessu en það á eftir að formgera allt regluverk mikið betur á Íslandi varðandi þetta. Mögulega eiga einhverjir bændur eftir að selja jörðina fyrir skammtímagróða til stórfyrirtækja sem munu þá planta í jarðirnar en í stað þess myndi ég bara hvetja alla til að horfa í kringum sig og taka þátt í verkefninu. Þetta er viðfangsefnið á komandi árum og það er ekki deilt um það að binding kolefnis er nauðsynleg fyrir vistkerfið,“ segir Eyjólfur. Lóa bætir svo við ,,svo þarf líka að muna að skógur er ekki varanlegur. Það er hægt að fella trén og þau vaxa upp aftur og öll viljum við timbur.“ Eyjólfur segir svo ,,nú þegar er byrjað að vinna nýtanlegt byggingarefni úr íslenskum við. Trén eru ekki hættuleg. Það er svona mín skoðun að í dag ríkir svolítil skammsýni og neikvæðni í garð skógræktar.“\r\n\r\n<strong>Sauðkindin og skógurinn ekki endilega óvinir</strong>\r\n\r\nEyjólfur minnir á að á Íslandi hafi verið skógur við upphaf landnáms þar sem í dag eru tún og ræktanlegt land. Hann telur sauðkindina ekki eins mikinn skaðvald og margir vilja meina. ,,Það var náttúrulega skógur alls staðar við upphaf landnáms og menn hafa kennt sauðkindinni svolítið um það að hann hvarf en ég held það sé ekkert þannig. Maðurinn hefur séð svolítið mikið um þetta sjálfur. Það var mikið birki hérna sem fór undir í járnvinnslu og til húshitunar þegar menn voru að höggva trén. Svo hefur þetta ekki vaxið aftur. Ég tel a.m.k. að eftir að vetrarbeit lagðist af og kindur fóru að vera á húsi allan veturinn held ég að þær hafi ekki verið að skemma skóga í stórum stíl. Við erum með ýmis önnur beitardýr og fuglar sem dæmi, álftir og gæsir, geta alveg eins kippt upp plöntum og skaðað tré líka. Og þó það sé ekki hér á þessu landsvæði hafa hreindýr líka verið til trafala á Austurlandi þegar kemur að beit,“ segir Eyjólfur.\r\n\r\n<strong>Garðyrkja og opið hugarfar</strong>\r\n\r\nEyjólfur og Lóa segjast vera að reyna að nýta jörðina sína vel með því að hafa opinn huga, horfa til framtíðar og prófa sig áfram. Eyjólfur segir: ,,Mín skoðun er svolítið sú að maður þarf að vera opin fyrir fleiri möguleikum og það er ekki hægt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Hinn hefðbundni búskapur á undir högg að sækja svo við erum að leita í að skoða eitthvað annað. Matjurtaræktin sem við byrjuðum á í vor er svo sem bara fikt og við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í. Megnið af grænmetisræktun á Íslandi er staðsett á Suðurlandi en það er ekkert á þessu svæði hér nema þá til einkanota. Hins vegar byrjaði fólk hérna norður á Ströndum með grænmetisræktun í fyrra og allt fór vel af stað hjá þeim. Það gaf hugmyndinni okkar smá byr í seglin, fyrst þetta gekk upp hjá þeim ákváðum við að prófa okkur áfram. Hér er hins vegar oft vindur og getur verið kalt í maí. Jarðvegurinn er frekar súr, sýrustigið er frekar lágt en grænmetið þarf æskilegt sýrustig til vaxtar. En við erum bara að byrja á að prófa okkur áfram, það a.m.k. tókst að forrækta einhverjar plöntur og það er komið upp hvítkál. Við settum líka niður spergilkál og blómkál en það er von á spergilkáli eftir sirka tvær vikur.“ Lóa bætir svo við: ,,Blómkálið er svo aftur á móti viðkvæmast og það voru mest afföll af þeirri rækt. Við settum niður þúsund hvítkál, þrjú þúsund spergilkál og fjögur þúsund blómkálsplöntur. Við erum sjálf ekki alin upp í þessu svo við erum ennþá bara að sækja okkur upplýsingar og læra á þetta. Við leitum okkur aðallega upplýsinga á Google og hjá NPK sem er heildsöluverslun með garðyrkjuvörur. Svo er Eyjólfur vel tengdur innan RML og getur leitað aðstoðar hjá samstarfsmönnum þar. Okkur finnst samt oft erfitt að finna sum svör, upplýsingarnar liggja ekki alltaf á lausu. En þetta er allavega að takast hjá okkur upp að einhverju marki.“\r\n\r\n<strong>Góðar viðtökur og mikill áhugi á heimaræktuðu grænmeti</strong>\r\n\r\nLóa segir þau vera byrjuð að selja hvítkálið á heimamarkaði, þau finni fyrir miklum áhuga og margir bíða spenntir eftir spergilkálinu. Hún segir Íslendinga sækjast eftir íslenskum afurðum og það vanti greinilega framleiðendur. ,,Við fengum styrk frá Uppbyggingarsjóð Vesturlands þar sem þetta flokkast undir nýsköpunarverkefni sem var gaman. Við erum svo byrjuð að selja hvítkálið hérna á heimamarkaði og við finnum fyrir miklum áhuga og góðum viðtökum. Nýupptekið er miklu ferskara og bragðmeira, þetta er allt annað. Við notum hvítkálið t.d. mikið í salat en annars er maður vanari því að nota það eldað. Það er klárlega þörf á fleiri framleiðendum því það er mikil eftirspurn eftir íslenskri framleiðslu. Það er alveg mikið af þessu ræktað á Íslandi en íslenska blómkálið og spergilkálið sérstaklega klárast yfirleitt fljótt á haustin,“ segir Lóa.\r\n\r\n<strong>Grænmeti á efri hæðinni og kindur á neðri hæðinni</strong>\r\n\r\nÞau segjast vera opin fyrir öllu hvað varðar matjurtarækt og ætla að sjá hvernig uppskeran fer þetta sumarið áður en þau ákveða hvort þau bæti við sig næsta sumar. ,,Þetta er allt til skoðunar. Í sannleika sagt vorum við frekar svartsýn og héldum að það kæmi ekkert hérna upp í vor. Við forsáðum um miðjan apríl og vorum með þetta undir hitalömpum hérna úti í hesthúsi á sirka 20 fermetrum. Svo plöntuðum við þessu út fyrstu vikuna í júní og settum undir akrýldúk en svo hefur þetta gengið býsna vel og það er allavega útlit fyrir einhverja uppskeru í sumar. Við höldum svo kannski áfram þó við segjum kannski ekki að við séum að fara í stórframleiðslu. Ef við stækkum við okkur þurfum við að skoða byggingu á einhverju húsi. Til þess þyrftum við líka tækjakost en við viljum bara prófa okkur áfram og sjá hvert þetta leiðir okkur, en byrjum á að að ná betri tökum á þessu. Svo hef ég alltaf einhverja hugmynd um að vera með grænmetisforræktun á efri hæðinni og rollur á neðri hæðinni í fjárhúshlöðunni á vorin,“ segir Eyjólfur.\r\n\r\n<strong>Allt of mikið af hugmyndum sem ekki verða að veruleika</strong>\r\n\r\nEyjólfur og Lóa vilja hvetja fólk sem fær hugmyndir við eldhúsborðið heima hjá sér að framkvæma þær allar. Þau segja atvinnuráðgjöf Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hafa nýst þeim vel en þar er hægt að koma með hugmyndir og fá aðstoð við frekari útfærslu. ,,Við viljum bara hvetja fólk til að framkvæma allar hugmyndir. Það er engin hugmynd það vitlaus að það eigi ekki að prófa og ég segi sem sveitarstjórnarmaður og stjórnarmaður hjá SSV að nýta atvinnuráðgjöfina hjá SSV. Spyrjast fyrir því atvinnuráðgjafar eru til að hjálpa okkur við þær hugmyndir sem við fáum og þá annað hvort afskrifa þær eða hjálpa manni af stað. Það er allt of algengt að fullt af eldhúsborðshugmyndum verða ekki að veruleika. Um að gera að nýta alla mögulega aðstoð til að koma sér af stað,“ segir parið í sameiningu.",
"innerBlocks": []
}