Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa einróma samþykkt að stofna hlutafélag um rekstur Carbfix, sem er dótturfélag OR. Tilgangurinn er að gera Carbfix mögulegt að beita tækni sinni í innlendum og alþjóðlegum verkefnum, sem stuðla að því að minnka losun CO2 út í andrúmsloftið og styðja þannig við loftslagsmarkmið Íslands og heimsins. Carbfix vinnur nú að nokkrum viðamiklum verkefnum til að nýta tækni sína og þróa hana frekar, og fleiri verkefni eru í burðarliðnum. „Ekki er talið raunhæft eða skynsamlegt að fjármagna vöxt verkefna Carbfix úr sjóðum Orkuveitu Reykjavíkur eða eigenda hennar, enda um áhættufjárfestingar að ræða. Því er gert ráð fyrir að fá virðisaukandi fjárfesta að félaginu, en gengið er út frá því að það verði áfram í meirihlutaeigu Orkuveitu Reykjavíkur. Þá verða hugverk Carbfix áfram alfarið í eigu Orkuveitunnar og þeirra sem komið hafa að þróun einstakra verkefna,“ segir í tilkynningu frá OR. Carbfix byrjaði fyrir fimmtán árum að þróa aðferð til að binda CO2 í jarðlögum neðanjarðar. Fyrirtækið hefur beitt henni samfleytt frá árinu 2012 til að binda CO2, einkum úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Carbfix á í samstarfi við fjölmarga aðila á Íslandi og víðsvegar um heiminn, bæði fyrirtæki, stjórnvöld, vísindasamfélagið og fleiri, um frekari beitingu og þróun tækninnar. Carbfix-tæknin hefur á undanförnum árum vakið heimsathygli. Fyrirtækið hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og styrki, bæði innanlands og erlendis, nú síðast stóran styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu.