Einar Víglundsson með laxinn væna úr Staðarhólsá. Ljósm. Þröstur.

Vænir fiskar að veiðast í Hvolsá og Staðarhólsá

Vestur í Dölum og í Borgarfirði eru árnar nú vatnsmiklar eftir miklar rigningar að undanförnu. Enn er spáð rigningu næstu daga. Laxveiðimenn gráta ekki mikið vatn. „Það gengur ágætlega hjá okkur en árnar eru vatnsmiklar eftir miklar rigningar,“ sagði Þröstur Reynisson sem var við veiðar í Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum. Hann var sömuleiðis við veiðar fyrir viku síðan.

„Við erum búnir að fá nokkra laxa og bleikjur, en hann Einar Víglundsson veiddi rígvænan lax í Staðarhólsánni við brúna, fyrir ofan Klapparfljótið. Þetta var 95 sentimetra fiskur og tók maðkinn. En þarna eru fleiri stórir. Það er alltaf gaman að veiða hérna en það eru komnir 70 laxar á land,“ sagði Þröstur ennfremur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir