Nýja hjáleiðin sveigir af Borgarbraut, yfir Kveldúlfsgarð og um Berugötu. Ljósm. glh.

Telur ekki boðlegt hvernig staðið er að umferðarstýringu um hjáleið

Eins og íbúar í Borgarnesi hafa orðið varir við standa nú yfir framkvæmdir við Borgarbraut á milli Böðvarsgötu og Egilsgötu. Verið er að endurnýja fráveitulagnir, hitaveitu- og vatnslagnir ásamt því sem yfirborð götu og gangstíga verður endurnýjað. Gatan er því lokuð og umferð beint um eina hjáleið sem sérstaklega var lögð vegna þessa; yfir Kveldúlfsvöll og um Berugötu. Upphaflega stóð til að hjáleið vegna þessa verkefnis í gamla bæjarhlutanum yrði um Böðvarsgötu, Þórólfsgötu og Sæunnargötu, en því var mótmælt m.a. af íbúum við göturnar, fagaðilum og bifreiðastjórum. Því ákvað byggðarráð í sumar að leggja fyrrnefnda hjáleið yfir Kveldúlfsvöll og um Berugötu.

Í tilkynningu frá byggðarráði fyrr í sumar sagði að markmiðið með þessari hjáleið væri að draga úr umferðarþunga sem annars lægi allur um Böðvarsgötu, Þórólfsgötu, Sæunnargötu og Bjarnarbraut. „Um er að ræða vandasama ákvörðun þar sem horft var til fjölmargra þátta en þar vega öryggismálin þyngst,“ sagði í bókun byggðarráðs. Íbúi við Berugötu, sem hafði samband við ritstjórn, er hins vegar allt annað en sáttur við hvernig staðið er að stýringu umferðar um götuna og telur umferðina ógn við öryggi. Auglýstur umferðarhraði væri vissulega 20 km/klst en hraði umferðar væri þó mun meiri. Viðkomandi segist ekki hafa fengið svör við athugasemdum og fyrirspurnum hjá sveitarfélaginu. Segir að íbúum hafi í sumar verið kynnt þessi framkvæmd þannig að um hringakstur yrði að ræða, að umferð í aðra áttina yrði beint um Berugötu en í hina áttina yrði henni beint um Sæunnargötu, Þórólfsgötu og Böðvarsgötu. Við það hafi hins vegar ekki verið staðið og allri umferð beint um götuna hjá þeim. Íbúi þessi segir umferðahraða alltof mikinn með tilheyrandi hættu fyrir börn og aðra gangandi umferð. „Nú er vika í að grunnskólinn hefji starfsemi sína og þá stóreykst umferð gangandi fólks þarna um. Það er algjört lágmark, að mínu mati, að þarna verði settar upp hraðahindranir þannig að raunhraði verði 20 km/klst og helst sett upp ljós sem sýna ökumönnum raunhraða. Þá er mönnuð gæsla lífsnauðsynleg þegar skólabörnin bætast við á leið sinni í grunnskólann,“ segir þessi íbúi við Berugötu í samtali við Skessuhorn.

Þarf að sýna þolinmæði og umburðarlyndi

Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri segir að framkvæmdir við Borgarbraut séu til þess að koma veitumálum í neðri bænum á góðan stað og þar með mikið lífsgæðamál fyrir íbúa. „Í þeim felst óneitanlega mikið rask fyrir íbúa og atvinnulíf. Á móti munum við fá nýjar lagnir og betri götur. Þangað til stöndum við frammi fyrir því að velja illskásta kostinn varðandi miðlun umferðar milli bæjarhluta. Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni þar enda viðfangsefni sem stjórnendur í þéttbýli um allan heim þurfa að fást við þegar framkvæmdir eru annars vegar,“ segir Stefán Broddi. Hann segir það rétt að fyrsta hjáleið hafi legið um langan veg, um Böðvarsgötu, yfir holtið og Sæunnargötu. „Sama hvernig á það er litið er það enn verri kostur heldur en sú hjáleið sem varð fyrir valinu. Ég held að langflestir sem málið varðar séu sammála því. Því miður bitnar það á íbúum í botnlanganum við Berugötu og við biðjum þá um að sýna þolinmæði og umburðarlyndi.“

Hann segir að umferðarhraði hafi síðan verið færður niður í 20 kílómetra um hjáleiðina. „Síðan það var gert hefur aðeins einn aðili viðhaft gagnrýni við mig á þessari útfærslu. Þessi gagnrýni er málefnaleg og ég held að við höfum sýnt að við erum tilbúin að bregðast við. Nú styttist í skólasetningu og þegar börn verða á leið í skóla verður gangbrautarvörður á staðnum en mér heyrist mikil ánægja hafa verið með störf gangbrautarvarðar á þessum stað síðustu áratugi. Ég kannast ekki við að íbúum hafi verið kynnt að áformað væri að hjáleiðin yrði hluti af hringakstri. Ég veit að sú hugmynd var rædd en náði ekki lengra enda hefði hún líklega engu breytt varðandi umferðarhraða. Varðandi verkið sjálft þá heyrist mér að nú sé búið að ljúka snúnum áfanga er varðar fráveitumálin og brátt verði því hægt að fjölga starfsmönnum í framkvæmdavinnu. Það er allra hagur að verkið gangi hratt. Borgarbyggð á um tíunda hlut af verkinu og snýr að endurnýjun gangstétta en erum á reglulegum verkfundum með verkaðila,“ segir Stefán Broddi í samtali við Skessuhorn.

Berugata.

Hætt var við að nota Böðvarsgötu, Þórólfsgötu og Sæunnargötu sem hjáleið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira