Bragi Þórðarson rithöfundur og útgefandi er hér með nýja bók úr smiðju sinni. Ljósm. úr safni/mm

Útför Braga Þórðarsonar fer fram í dag

Bragi Þórðarson, fyrrverandi bókaútgefandi, rithöfundur og framkvæmdastjóri á Akranesi lést 25. júlí síðastliðinn, 89 ára að aldri. Útför hans fer fram frá Akraneskirkju klukkan 13 í dag.

Bragi fæddist á Akranesi 24. júní 1933. Foreldrar hans voru Þórður Ásmundsson verkamaður frá Fellsaxlarkoti í Skilmannahreppi og Sigríður Hallsdóttir frá Stóra-Fljóti í Biskupstungum. Var Bragi þriðji í röð fjögurra systkina. Árið 1956 kvæntist Bragi Elínu Þorvaldsdóttur sem lifir mann sinn. Börn þeirra eru tvö; Þorvaldur og Bryndís.

Bragi gekk í skóla á Akranesi og lauk sveinsprófi í prentiðn (setningu) árið 1954. Hann fékk meistarabréf árið 1957 og starfaði í tæpa þrjá áratugi í Prentverki Akraness, fyrst við setningu en síðan sem prentsmiðjustjóri og einn af eigendum fyrirtækisins. Hann stofnaði ásamt Elínu eiginkonu sinni Hörpuútgáfuna árið 1960. Árið 1982 seldi Bragi sinn hlut í Prentverki Akraness og sneri sér alfarið að útgáfustarfsemi og ritstörfum. Sama ár stofnuðu hann og Elín Bókaskemmuna á Akranesi sem þau ráku til ársins 1992. Bókaskemman var í senn stór bóka- og ritfangaverslun á þess tíma mælikvarða og ruddi auk þess brautina í sölu tölvubúnaðar þegar sú tækni var að ryðja sér til rúms á níunda og tíunda áratugnum. Hörpuútgáfuna ráku þau hjón til ársins 2007. Hörpuútgáfan lagði áherslu á útgáfu sígildra bóka. Má þar nefna ljóðabækur, ævisögur, bækur um þjóðlegan fróðleik, héraðssögur og fleira sem að stórum hluta tengdist Akranesi og Borgarfjarðarhéraði. Þannig má segja að þau Bragi og Elín hafi átt hvað drýgstan þátt allra í að skrá og viðhalda þekkingu um liðna tíma í héraði. Hörpuútgáfan gaf alls út um 500 bókartitla á starfstíma sínum og þar af skrifaði Bragi sjálfur 22 bækur.

Meðal félagsstarfa má nefna að Bragi sat í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins, í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda, í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar og í stjórn Bæjar- og héraðsbókasafns Akraness. Hann var virkur í skátastarfinu á Akranesi frá 1943 og félagsforingi Skátafélags Akraness um árabil. Hann vígðist í Oddfellow-regluna árið 1960 og var virkur félagi til æviloka. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum bæði fyrir stúku sína og Regluna á landsvísu.

Bragi hlaut Borgfirsku menningarverðlaunin og Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2004. Sama ár var hann gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra bókaútgefenda. Hann var sæmdur heiðursmerki Oddfellow-reglunnar árið 2005 og árið 2006 varð hann heiðursfélagi í Skátafélagi Akraness. Bragi var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007. Árið 2018 veitti Bæjarstjórn Akraness honum nafnbótina Heiðursborgari Akraness.

Fyrir hönd Skessuhorns eru Braga Þórðarsyni færðar alúðar þakkir fyrir áralanga ræktarsemi og vinskap við fyrirtækið og starfsfólk þess.

-mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir