Hér við Kirkjufellsrétt og Draugafoss í Haukadal er upphaf 26 kílómetra hlaupsins.

Pósthlaup um fornar slóðir milli Hrútafjarðar og Dala

Á morgun, 6. ágúst mun Pósthlaupið fara fram fyrsta sinn. Pósthlaupið á grunnar rætur sem rekja má til starfsmanna Íslandspósts en hugmyndin kom upp í vetur meðal starfsmannahópsins um að hlaupa gamlar landpóstaleiðir. Úr varð að hlaupið var skipulagt og er opið öllum langhlaupurum sem þora og vilja. Leiðin liggur frá Staðarskála í Hrútafirði, um Haukadalsskarð og í Búðardal og telur um 50 kílómetra.

Hlaupið hefst við minnismerki um landpósta sunnan við Staðarskála í Hrútafirði. Þaðan verður hlaupin gömul landpóstaleið yfir Haukadalsskarð niður í Haukadal og sem leið liggur eftir dalnum, meðfram Haukadalsvatni, niður á reiðstíg við Vestfjarðaveg í Dölum og eftir Vestfjarðaveginum alla leið í Búðardal. Einnig er í boði að hlaupa 26 kílómetra, frá Kirkjufellsrétt innst í Haukadal, eða 7 kílómetra, frá flugvellinum á Kambsnesi, í Búðardal. Leiðin er talsvert á fótinn fyrir þau sem fara 50 kílómetra, því Haukadalsskarðið er í um 375 metra hæð, en styttri leiðirnar eru auðveldari.

Hlaupið hefst klukkan 9.00 við minnismerki landpósta við Staðarskála, við Kirkjufellsrétt um kl. 11:30 og frá Búðardalsflugvelli hlukkan 13:30. Boðið er upp á rútuferðir frá Búðardal og á upphafsstaðina, en allar frekari upplýsingar um fyrirkomulag má finna á þessari slóð: https://hlaup.is/vidburdir/posthlaupid-06-08-2022

Líkar þetta

Fleiri fréttir