Leikmenn Kára ræða málin í leiknum gegn Kormáki/Hvöt í lok júlí. Ljósm. Kári

Naumt tap Kára gegn Dalvík/Reyni

Leikmenn Kára gerðu sér ferð norður í gær þegar þeir mættu liði Dalvíkur/Reynis í 3. deild karla í knattspyrnu á Dalvíkurvelli og urðu að sætta sig við tap, 2-1. Þetta var fyrsti leikur Kára undir stjórn hins nýja þjálfara, Wout Droste, sem tók við liðinu í vikunni. Eftir rúman hálftíma leik kom Kolbeinn Tumi Sveinsson Kára yfir í leiknum og þannig var staðan í hálfleik, 0-1.

Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson, leikmaður Kára, varð síðan fyrir því óláni á 63. mínútu að skora sjálfsmark og þar með jafna leikinn fyrir Dalvík/Reyni. Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og allt útlit fyrir að liðin þyrftu að sætta sig við jafntefli skoraði Þröstur Mikael Jónsson sigurmark heimamanna og kom þeim í leiðinni á topp deildarinnar, lokastaðan 2-1 fyrir Dalvík/Reyni.

Aðeins tveir leikmenn voru á varamannabekk Kára í leiknum, Ingimar Elí Hlynsson var í leikbanni vegna fjögurra gulra spjalda, fyrirliðinn Andri Júlíusson var erlendis, Hilmar Þór Halldórsson á leið í nám til Bandaríkjanna og þá fengu nokkrir leikmenn Kára ekki frí úr vinnu. Einnig var á sama tíma leikur hjá ÍA/Kára/Skallagrími gegn HK/Ými í 2. flokki og gátu því ekki gjaldgengir leikmenn spilað með Kára.

Næsti leikur Kára er á móti liði Elliða föstudaginn 12. ágúst í Akraneshöllinni og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir