Miðað við tillögur sem byggðarráð hefur staðfest mun núverandi starfsemi í Safnahúsinu við Bjarnarbraut 4-6 færast annað. Ljósm. mm

Breytingar fyrirhugaðar á starfsemi Safnahússins í Borgarnesi

Byggðarráð Borgarbyggðar hefur að undanförnu unnið að mótun tillagna um framtíðarfyrirkomulag fyrir Safnahús Borgarfjarðar til næstu ára. Í húsinu eru fimm söfn og fólst verkefnið í að skilgreina hlutverk og framtíðarsýn fyrir þau, áherslur, meginmarkmið og nauðsynlegar aðgerðir til að ná þeim fram.

Niðurstaðan er að auka þurfi fjölbreytni í safnastarfinu og nýta betur söfnin og safnkost þeirra. Ennfremur að móta þurfi sýn, áherslur og aðgerðir fyrir hvert safn, færa Héraðsskjalasafnið nær stjórnsýslunni og nútímavæða bókasafnið með því að færa það í menningarhúsið Hjálmaklett þar sem Menntaskóli Borgarfjarðar starfar. Einnig er kveðið á um að gera Náttúrugripasafn Borgarfjarðar hluta af Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri, endurskoða nýtingu núverandi húsnæðis Safnahúss við Bjarnarbraut og munageymslur og stjórnskipulag svo fátt eitt sé nefnt.

Byggðarráð hefur falið forstöðumanni menningarmála að láta kostnaðarmeta ofangreindar megintillögur og hefja formlega viðræður um flutning Héraðsbókasafnsins við stjórn og skólastjóra Menntaskóla Borgarfjarðar. Fram kemur á heimasíðu Safnahússins að Náttúrugripasafn Borgarfjarðar var stofnað árið 1972. Fuglar úr safneigninni eru sýndir á grunnsýningunni Ævintýri fuglanna sem hönnuð er af Snorra Frey Hilmarssyni og var opnuð vorið 2013. Sýningin er helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar sparisjóðsstjóra sem átti á sínum tíma stóran þátt í að efla safnkostinn.

Náttúrugripasafnið er deild í Byggðasafni Borgarfjarðar sem stofnað var árið 1960. Að því stóðu á sínum tíma Samband borgfirskra kvenna, Búnaðarsamband Borgarfjarðar, Borgfirðingafélagið í Reykjavík, Ungmennasamband Borgarfjarðar og Kaupfélag Borgfirðinga. Síðar féll reksturinn til sveitarfélaganna á svæðinu, en með samningi árið 2007 var byggðasamlagi um safnamál í Borgarfirði slitið. Þá varð Borgarbyggð eini eigandi byggðasafnsins en gerði þjónustusamninga við nágrannasveitarfélög sem aðra eigendur safnkostsins.

Söfnin fimm hafa frá upphafi verið í nánu sambýli í Borgarnesi sem er nú líklegt að verði breyting á. Menningarnefnd Borgarbyggðar hverju sinni er stjórn Safnahúss. Núverandi stjórn er atvinnu,- markaðs- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins og er Eva Margrét Jónudóttir formaður hennar. Nefndin hefur lagt til að Þórunn Kjartansdóttir, sem er nýráðin forstöðumaður menningarmála, verði áheyrnarfulltrúi á fundum nefndarinnar þegar menningarmál verða til umræðu. Þórunn hóf störf í byrjun ágúst. Nefndin staðfesti ákvörðun byggðarráðs um að hún leggði fram kostnaðaráætlun ásamt því að formlegar viðræður yrðu hafnar við stjórn og skólastjóra Menntaskóla Borgarfjarðar um flutning Héraðsbókasafnsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir