Þolendum heimilisofbeldis auðveldað að fá skilnað

Mörg mál voru samþykkt á lokametrum Alþingis fyrir sumarleyfi. Eitt þeirra var sérstaklega miðað að því að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis. Skilnaðarferlið verður auðveldað fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka síns eða býr á heimili þar sem barn hefur verið beitt ofbeldi.

Það er Viðreisn sem hafði veg og vanda að því að fá frumvarp þetta samþykkt, endurfluttu mál sem þingflokkurinn tók upp fyrir þremur árum. Fram til þessa hafa þolendur heimilisofbeldis aðeins getað krafist lögskilnaðar án undangengis skilnaðar að borði og sæng ef maki þeirra gengst við ofbeldinu og samþykkir skilnað á grundvelli þess. Gildir þar einu þótt hann hafi hlotið dóm fyrir ofbeldið sem hann hefur beitt maka sinn.

Þegar lögin taka gildi munu þolendur geta krafist lögskilnaðar ef maki gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir það, fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu sem staðfesta útkall vegna heimilisofbeldis, önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans eða heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefur af öðrum ástæðum tilefni til þess að ætla að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu hins. Þegar skilnaðar er krafist á þessum grundvelli fyrir dómi munu þolendur jafnframt eiga rétt á sérstakri flýtimeðferð. Hér er um að ræða verulegar réttarbætur fyrir fólk í viðkvæmri stöðu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir