Michelle Bird og Mike Albrow mála verkið sem mun vera sent til tunglsins í tímahylki á vegum verkefnisins Lunar Codex.

Sendir málverk til tunglsins

Listakonan Michelle Bird býr í Borgarnesi. Málverk eftir hana hefur verið valið til þess að vera í hópi fjölmargra listaverka sem send eru til tunglsins á vegum verkefnisins Lunar Codex. Michelle málaði verkið sem nú fer á ferðalag ásamt listamanninum Mike Albrow sem er búsettur í Sviss.

Lunar Codex er verkefni sem sendir listaverk eftir listmálara, rithöfunda, tónlistarfólk og kvikmyndagerðarfólk til tunglsins í tímahylkjum. Michelle er fyrsta listakonan frá Íslandi sem tekur þátt í verkefninu og Mike annar listamaðurinn frá Sviss. Tímahylkin eru þrjú talsins og munu koma til með að lenda á þremur mismunandi stöðum á tunglinu. Tímahylkin heita Peregrine, Nova og Polaris.

Listaverkið „Magdalena‘s Battle with the Boar“ eftir Michelle og Mike verður sent í Polaris, þriðja tímahylkinu ásamt 25.000 öðrum verkum frá 108 löndum. Fyrsta tímahylkið, Nova, mun leggja af stað í september 2022, Peregrine í lok árs 2022 og Polaris fyrripart ársins 2023. Samuel Peralta er maðurinn á bak við verkefnið en hann segir verkefnið hafa byrjað á tímabili Covid-19 til að dreifa von, en verkefnið vinnur hann í samvinnu við NASA. Hylkin eiga að vera uppgötvuð á tunglinu af næstu kynslóðum til að læra um okkar tíma svo gjörningurinn er í senn sögulegur og menningarlegur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir