Björgin komin með Gosa nærri landi. Ljósm. tfk.

Búið er að draga brennandi bátinn að landi

Nú er búið að draga flak Gosa KE nærri landi milli Rifs og Ólafsvíkur. Það var björgunarskip Lífsbjargar í Rifi sem kom að bátnum um klukkan 10 í morgun þar sem hann var um tvær sjómílur norðvestur af Rifi, en eldsins hafði orðið vart um hálftíma áður. Reynt var að slökkva eldinn með vatni sem Björg dældi á hann, en síðan var ákveðið að draga hann nær landi. Að sögn Tómasar Freys Kristjánssonar, fréttaritara Skessuhorns, hefur ekki enn tekist að slökkva eldinn. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í morgun varð mannbjörg, en einn maður var um borð þegar eldurinn kviknaði. Honum var náð úr sjónum af mönnum á öðrum fiskibáti.

Gosi KE-102 á heimahöfn í Vogum, en var smíðaður í Rönnang í Svíþjóð árið 1985. Gosi er skilgreindur sem dragnótar- og netabátur en var gerður út á strandveiðar þegar þetta óhapp varð í morgun. Eins og sést á myndunum er báturinn ónýtur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira